Eins og þeir vita sem fylgjast með veiða.is, þá höfum við reglulega birt fréttir úr Brúará, landi Spóastaða, frá því að veiði hófst þann 1. apríl. Í byrjun maí renndum við í veiðikofann við ánna og kíktum í bókina og það gerðum við svo aftur í gær.

Í gær, þann 27. júní var búið að skrá 112 bleikjur í veiðibókina að Spóastöðum og vitað er að ekki hafa allir sem veitt hafa við ánna, sinnt þeirri skyldu sinni að skrá aflann. Síðustu dagar hafa verið góðir við ánna. Yfir 30 bleikjur voru skráðar í bókina frá fimmtudegi til mánudags. Eins og við höfum margoft nefnt áður þá hefur stanganýting að Spóastöðum verið með lélegasta móti þetta sumarið og vorið en hún er hinsvegar að aukast þessa dagana, enda bleikjan mætt á svæðið.

Helstu staðir sem hafa verið að gefa síðustu daga eru Hrafnaklettar, Kerlingarvíkin og Fossbrúnin. Nú er komin sá tími að laxar geta farið að veiðast í Brúará. Fréttir hafa borist af veiði á Iðu og svo er laxinn mættur uppí Tungufljótið.

Við munum áfram í sumar fylgjast með gangi mála í Brúará og birta fréttir hér inná síðunni og einnig í fréttabréfi veiða.is.