Opnanir laxveiðiáa koma í nokkrum lotum. Fyrst í byrjun júní, svo eftir 20. júní og nú 1. júlí. Mest umræða er yfirleitt um þær stærri í flórunni eða um þær sem opna hvað best. Þó svo að nokkrar ár séu að byrja mjög vel, þá eru þær all margar sem fara erfiðlega af stað, lítið af fiski hefur gengið í þær og fáir laxar hafa komið á land.
Óþarfi er samt að afskrifa þær, enda tímabilið rétt að skríða af stað.
Síðustu daga hafa nokkrar af þeim ám sem skráðar eru á veiða.is, opnað. Þar á meðal opnuðu Álftá á Mýrum, Krossá, Laxá á Refasveit, Leirá í Leirársveit og Glerá í dag. Við munum reyna að birta fréttir úr öllum þessum ám í sumar og höfum nú í fréttapakka dagsins nokkra mola.
Krossá er undir hatti Hreggnasa en þeir greindu í dag frá því að um 60 laxar væru komnir í gegnum teljarann og að 9 laxar hefðu veiðst á fyrstu vaktinni í ánni. Um met er að ræða og veit það á gott fyrir sumarið í ánni.
Á fyrstu vaktinni í Álftá á Mýrum kom enginn lax á land en nokkrir birtingar bitu á agnið. Ekki hefur verið staðfest hvort laxinn sé mættur í ánna en þó ert vart lengi að bíða þar til sá fyrsti kemur á land.
Langholtið í Hvítá opnaði 24. júní. Byrjunin hefur verið með besta móti í ánni, miðað við síðustu ár. Rúmlega 10 laxar eru komnir á land, þar af 16, 12 og 10 pundarar.
Glerá í Dölum opnaði í dag en ekki hefur neinn lax sést ennþá í ánni. Áin er síðsumarsá og því mun ekki skýrast fyrr en líður á júlí hvernig árar á svæðinu. Mjög lítið hefur rignt síðustu vikur en þó er ágætt vatn enn í ánni. Langvarandi þurrkar geta hinsvegar gert veiðina erfiða í Glerá.
Ágætur gangur hefur verið í Flókunni frá opnun. Um 60 laxar voru komnir á land í dag.
Ekki náðist í Veiðimenn í Leirá og Refsveit í kvöld en við birtum vonandi fréttir úr þeim ám á næstu dögum.
Eins og áður hefur komið fram þá opnaði Hofsá frábærlega. 35 laxar komu á land í opnunar hollinu sem er með því mesta sem sést hefur. Gaman verður að sjá hvort áin haldi áfram að gefa vel en í Hofsá er öllum laxi 69 cm og stærri sleppt.
Í öðrum fréttapunktum er það m.a. að Tungufljót þeirra Lax-á manna opnaði í dag. Ekki er á hreinu hvað veiddist fyrsta daginn en þó er víst að þeir náðu að staðfesta að laxinn er genginn í ánna því til þeirra sást að landa laxi í fossinum Faxa fyrr í dag.
Við munum svo birta fleiri fréttir á næstu dögum.