Merki þess að nú styttist í annan enda laxveiðitímabilsins sjást nú vel á veðurkortunum. Það er vætutíð framundan, þó enn vanti stórrigningarnar sem láta þó efalaust sjá sig þegar kemur fram að mánaðarmótum.
Þó svo ljóst sé að almennt er lítið um síðsumars göngur hjá laxinum, þá hefur sú rigning sem hefur fallið, hleypt lífi í árnar og hreyft við þeim fiski sem þó er kominn í þær. Hér eru nokkrir fréttapunktar frá liðnum dögum.
Við sögðum frá því í síðustu viku að töluvert af nýjum laxi væri að ganga uppí Álftá en holl sem endaði veiði um miðja vikuna var með 38 fiska.
Önnur á sem er í fínu formi er Hofsá en holl sem lauk veiði á hádegi á sunnudaginn var með 47 fiska og veiddist töluvert af nýgengnum laxi í hollinu.
Veiða.is heyrði svo í veiðimanni sem var að koma úr Kjarrá. Hefur hann veitt í ánni í mörg undangengin ár og yfirleitt veitt vel. Árið í ár var engin undantekning þó miklu erfiðari hafi verið að finna laxinn en oft áður. Hann náði 8 löxum, flestum á ómerktum stöðum þar sem líklega fáir koma yfir sumarið.
Gufuá hafði gott af vætunni sem kom á dögunum og nú er laxinn búinn að dreifa sér ágætlega um ánna. Síðustu daga hefur veiðst ágætlega. 2-6 laxar hafa verið að veiðast á dag þegar aðstæður hafa verið góðar. Hér er hægt að sjá hvað er laust í ánni út tímabilið.
Leiráin hefur verið í fínu vatni að undanförnu enda hafa komið nokkuð margir dagar að undanförnu þar sem ekki hefur vafist fyrir veiðimönnum að ná kvótanum. Kíkið á lausa daga hér.
Nú hefur aftur verið opnað fyrir veiði á ósasvæði Laxá á Ásum. Eins og við sögðum frá í vikunni þá hefur svæðið slegið í gegn hjá mörgum þeirra sem kíktu þar við í vor. Hérna er hægt að sjá lausa daga á næstunni.
Ágæt veiði hefur verið í Eyjafjarðará að undanförnu. Hér að ofan er mynd af einni kusu sem tók Pheasant Tail í Hávaðaroki síðasta sunnudag. Reyndist hún 68 cm og fékk að sjálfsögðu að snúa aftur útí ánna aftur. Hægt er að fá upplýsingar um lausar stangir í Eyjafjarðaránni með því að hringja í Ellingsen á Akureyri.