Hann Kristján Friðriksson hjá Flugur og Skröksögur sendi okkur í morgun frásögn af veru þeirra hjóna við Hlíðarvatn í Selvogi í gær. Nutu þau dagsins til hins ítrasta. Mikið líf var við og í vatninu og til að toppa daginn þá fengu þau að líta augum eina af Drottningum vatnsins, 67 sm bleikju sem Stefán Hjaltested var nýbúinn að landa. Hér til hliðar má sjá mynd af bleikjunni sem verður líklega stoppuð upp. Hér má lesa frásögn Kristjáns:
Lengi lifi Hlíðarvatnið
Það er hvorki dautt né steindautt, það hefur verið sannað svo um munar. Við hjónin áttum mánudaginn í húsi Árbliks við Hlíðarvatn en nýttum það heldur illa, þ.e. eyddum fáum stundum í húsinu sjálfu en því fleiri í og við vatnið. Frúin setti strax í tvo fiska rétt norðan Hjalltanga á sunnudagskvöldið á meðan ég tók stöðuna á upprennandi stórbleikjum og setti í nokkra titti bæði á Mölinni og út af Hjalltanga. Heldur var ég nú sneyptur þegar ég lagðist í bólið töluvert eftir miðnættið en pínulítið áttu nú risið eftir að lyftast á mér á mánudaginn.
Skilyrði til veiði voru frábær á mánudeginum; þoka með skúrum, þungt yfir en hlýtt og hið besta veður. Þar sem bleikjan á það til að leita vars fyrir vindi sem hefur verið að sveiflast ASA / SSA síðustu daga á þessum slóðum, ákváðum við að hefja leika undir Réttinni og auðvitað bætti frúin við í safnið, ég ekki. Staðan orðin 3:0 þegar nálgaðist hálfleik og við færðum okkur aftur í átt að Botnavík og ákváðum að reyna fyrir okkur við Réttarnesið. Heldur þótti okkur dapurt að sjá á þessu ferðalagi okkar að svo virtist vera sem aðeins væru tvær stangir nýttar af þeim 14 sem standa til boða við vatnið en þegar í Botnavíkina var komið sáum við til veiðimanns sem var að stússast í bleikju í Botnlanganum og Fóellutjörninni gengt okkur. Frúin hélt auðvitað uppteknum hætti og tók tvær bleikjur til viðbótar á grynningunum við Réttarnesið auk smælkis sem auðvitað var sleppt.
Nú var ekkert annað að gera en fara upp í hús og fá sér bita, maður veiðir ekkert á tóman maga. Á leiðinni ákváðum við að heilsa upp á þriðja manninn sem þá var komin að húsi Ármanna og mikið þótti mér vænt um að sjá þar einn af höfðingjum Hlíðarvatns, Stefán Hjaltested sem tók okkur fagnandi að venju. Reyndar var fögnuður hans mestur að hitta okkur því hann þurfti aðstoð við myndatöku. ‚Nú, já. Varstu að fá fisk?‘ varð mér að orði. Glotti þá Stefán og dró fram bleikju, 67 sm. drottningu sem hann sagði að þyrfti að koma á mynd því hann yrði að senda Árna í Stakkavík hana. Ég hef aldrei séð aðra eins bleikju á ævinni og frábært að sjá að Hlíðarvatnið er svo sannanlega ekki dautt, enda var þessi fiskur í góðum félagsskap annarra af hefðbundinni Hlíðarvatns-stærð í kæli hjá Stefáni. Það sannast enn og aftur að þeir fiska sem róa og með það að leiðarljósi fórum við þrjú að lokum miðdegisbita í félagi niður í Botnavík og nutum seinni hluta dagsins þar saman við veiði.
Og því þvílíkt sjónarspil og sýning. Flugan klaktist út í gríð og erg á miðri víkinni og bleikjan veltist um í ætinu, því miður rétt utan kastfæris. Stöku sinnum fylgdi hún þó flugunni inn víkina og loks tókst mér að setja í alvöru bleikju en var þó ekki nema hálfdrættingur á við Stefán sem setti í stærri fisk og svo enn stærri fisk. Sá hefur væntanlega verið yfir 60 sm. og því lágu tvær yfir 60 hjá honum eftir daginn. Nei, Hlíðarvatnið er sko ekki dautt. Auðvitað setti frúin síðan í einn fisk enn þannig að loka niðurstaðan varð 6:1 og við hjónin miklu meira en sátt.
Þrátt fyrir allt varð mér síðan ánægja af því að sjá að hópur manna var mættur í Árblik rétt fyrir vaktaskipti þegar við hjónin drógum inn í síðasta skiptið. Ég segi þrátt fyrir allt, því hefði næsta holl ekki mætt hefði ég trúlega hringt inn og boðað áframhaldandi viðveru okkar við vatnið, svo mikið líf var í víkinni og aðstæður alveg frábærar. Hliðarvatnið lengi lifi, takk fyrir okkur í þetta skiptið.