Stórfiskafréttunum úr Húseyjarkvísl hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Líklega má þakka það að miklu leyti þeirri grunnstefnu sem unnið er eftir í ánni að sleppa öllum fiski sem kemur á land. Fyrir þá sem vita ekki hvar Húseyjarkvísl er, þá er hún fyrsta áin sem ekið er yfir rétt fyrir neðan Varmahlíð á leiðinni til Akureyrar.
Þessi risa birtingur kom á land í Húseyjarkvísl í gær. Mældist hann 96 cm og var honum að sjálfsögðu sleppt aftur í ánna að lokinni myndatöku. Tók hann Dýrbít með gúmmílöppum. Á myndinni er Stjáni Ben leiðsögumaður, ásamt viðskiptavini sínum.