Eins og við höfum áður sagt frá þá reynum við að fylgjast með vel með veiðinni í Brúará fyrir landi Spóastaða. Veiðin á svæðinu byrjaði gríðarlega vel í byrjun apríl, betur en oftast áður enda var veður með afbrigðum gott. Þegar kom inní mánuðinn kólnaði mikið og nokkra daga hefur snjóað. Veiðimenn sem hyggja á ferð í Brúará á þessum tíma fylgjast yfirleitt vel með veðurspánni og það gerðu einmitt þeir sem bókuðu 2 stangir þann 17. apríl.

Spáin sagði að hæglætis veður yrði þennan dag, 5-6°og fremur bjart. Að morgni 17. héldu þeir úr bænum en þegar komið var upp fyrir Þrastarlund tók veturinn á móti þeim. Þessa nótt féll einn mesti snjór sem fallið hefur á einni nóttu nú í vetur á svæðinu. Þeir létu það samt ekki stoppa sig. Á bökkum Brúará lá 15-25 cm jafnfallin snjór. Þeir byrjuðu niðri á Breiðabakka, urðu smá varir en þegar snjóþyngslin undir skónum voru farin að pirra menn þá ákváðu þeir að færa sig upp að brú og láta þar við sitja þann daginn.

Byrjuðu þeir rétt fyrir ofan brú, á eyrinni. Annar fór á undan, veiddi uppfyrir sig með dropper og tökuvara; óð örlítið útí þannig að moldartaumurinn markaði slóð í ána þar sem hann hafði farið, eftir því sem hann færði sig upp með ánni. Hinn kom á eftir, einnig með dropper en engan tökuvara. Neðri flugan hjá honum var frekar stórt afbrigði af Pheasant Tail. Eftir nokkur köst tók fyrsta bleikjan. Svo önnur og önnur, alls fjórar þarna í beit. Fínir fiskar, vel haldnir eftir mildan vetur. Allar bleikjurnar tóku stærri fluguna. Fimmti fiskurinn kom svo undir brúnni; staðbundinn urriði um pundið. Öllum fiskunum var sleppt aftur í ána og fá því fleiri tækifæri til að reyna við þá í sumar. Rétt eftir hádegi héldu þeir aftur suður, ánægðir eftir óvænta veiði þennan vetrarmorgun. Það þarf ekki að vera sól og hiti tiil að gera góða veiði við Brúará.

Veiðimenn þennan morgun voru þeir Hrafn Ágústsson og Júlíus Gunnlaugsson. Hrafn er hér að ofan með eina af þeim bleikjum sem komu á land þennan morgun. Henni var síðan sleppt aftur í ána eftir myndatökuna.

Nú eru rétt undir 90 fiskar komnir á land á Spóastöðum. Ekki eru allir enn skráðir í bókina, en það stendur til bóta. Fram undan er einn skemmtilegasti tími svæðisins. Nokkuð er um lausar stangir um helgar nú í maí og hvetjum við áhuga sama um að tryggja sér þær sem fyrst.

[email protected]