Sumarið í sumar er búið að vera gríðarlega gott í Vatnsdalnum, veiðilega séð. Nú á miðvikudaginn var áin komin í 629 laxa og var vikuveiðin 135 laxar. Í fyrra komu 494 laxar á land og nú þegar er farið að tala um þetta sumar sem eitt það besta í Vatnsdalnum. Veiðin hefur verið góð alveg frá því að áin opnaði, þó kannski hafi verið minna um stóru laxana heldur en stundum áður. Í gær kom þó einn af þeim stóru á land sem áin er þekkt fyrir.
Þetta er ekki fyrsti stórlaxinn sem veiðimaðurinn Björn K Rúnarsson hefur veitt í Vatndalsá. Þessi reyndist 99 cm langur og tók lítinn rauðan Kónhead í kvöldsólinni í gærkveldi í Torfuhvammshyl. Hægt er að fylgjast með fréttum úr Vatnsdalsá inni á vatnsdalsa.is.