Þingvallavatn opnaði í gær. Ekki fór mörgum sögum af mikilli bleikjuveiði, þó flestir hafi verið á höttunum eftir henni. Fréttir af risaurriðum hafa hinsvegar vakið mikla athygli og ekki skemmir að myndir eru til af skepnunum. Við fengum lánaðar tvær myndir inná Facebook vegg Veiðiflugna.
Myndin hér að ofan er af Tommy Za, starfsmanni Veiðiflugna með glæsilegan 9,8 kg. urriða sem hann veiddi á ónefndum stað í Þingvallavatni í gær. Urriðinn tók Black Ghost sunburst zonker.
Myndin hér til hliðar er af veiðikonunni Lilju Óla með 8 kg. urriða sem hún veiddi einnig í Þingvallavatni í gær, þó ekki í landi Þjóðgarðsins. Þessi fiskur tók einnig „sunburst“ útgáfuna af Black Ghost.
Báðum var að sjálfsögðu sleppt aftur í vatnið.