Brúará er önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins, hún er lindá og vatnasvæðið um 700 km2, rennsli mjög jafnt eða um 67 rúmmetrar á sek. Lengd hennar er 44 km. Í landi Skálholts eru nokkrir heitir hverir í og við Brúará frá Þorlákshver að Litlahver en neðan hans er mjög fallegt og friðsælt veiðisvæði.

Veiði í Brúará er stunduð frá nokkrum bæjum, lax og silungsveiði á stöng. Silungurinn er bæði sjógenginn og staðbundinn 0.5 til 2 kg að þyngd. Lax gengur einkum í ágúst og september.

Vinsamlegast kynnið ykkur kort af svæðinu Með því að smella á link hér neðarlega á síðunni. Hægt er að hringja í sr. Kristján Björnson í síma 856 1592 um leiðsögn.

Tekið er á móti pöntunum í gistingu og veitingar í Skálholti á netfangið [email protected].

Veiðileyfin hérna eru fyrir landi Skálholts

Fjöldi stanga: 4

Verð veiðileyfa: 3.950-4.650

Leyfilegt agn: Fluga, maðkur og spúnn.

Veiðitími: 8 – 22

Veiðisvæðið: Skálholtssvæðið í Brúará kom fyrst í sölu 2020 og frekar lítil veiðireynsla skrásett af þessu svæði. Aðgengi að hluta svæðisins er gott, en ganga þarf nokkuð út frá þremur vegaslóðum í Skálholtstungu. Veiðisvæðið tekur við af landi Spóastaða, að ofanverðu, suður með miklu mýrlendi í Mosum, meðfram hverasvæðinu og niður alla Skálholtstungu um hverasvæðið og þaðan suður um Reykjanesbakka, Baulubakka og Vesturtjörn að Músanesi eða alls um 9 km. Syðri veiðimörk svæðisins eru nokkuð fyrir ofan ármótin við Hvítá, beint í vestur frá Músanesinu. Fyrst er ekinn vegaslóði sem merktur er Skólavegur og þaðan er slóði merktur Skálholtstunga.

Bókaðir eru stakir dagar, 1-4 stangir. Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn. Leyfið gildir á landareign Skálholts, sem er á austurbakka árinnar.
Vinsamlega fylgið vegaslóðum og akið ekki utan vega.

Leiðarlýsing:

Ekið er af Skálholtsvegi (31) niður afleggjara heim að Skálholtsstað en þaðan fljótlega til hægri inná veg í átt að Skálholtsbúðum. Þar er farið um járnhlið á móts við Skálholtsbúðirnar til að komast í Skálholtstunguna. Við hliðið er póstkassi með veiðikorti og veiðidagbók. Þar tekur við mölborinn vegslóði, Skólavegur, í suður og liggur svo þaðan til hægri, merkt Skálholtstunga, að bílastæði við Þorlákshver (Hitaveita Skálholts). Stikuð gönguleið er þaðan í norður að Hveraskotti og nær veiðisvæðið allt noður að Kerslæk. Af bílastæðinu við Þorlákshver er einnig stuttur gangur niður eftir ánni á Hverhólma. Varað er við því að ganga inná sjálft hverasvæðið enda vatnið við suðumark í og við hverinn og mosinn viðkvæmur. Suður af Þorklákshver er komið að Hverhólmum og þaðan er einnig göngufæri niður með ánni og víða ylvolgar uppsprettur.

Nokkru áður en komið er að bílastæðinu við Þorlákshver er vegslóði suður í Skálholtstungu. Hann liggur í fyrstu niður fyrir Bolhaus og er þar ekið að einum besta veiðistaðnum í Brúará frá Bolhaus og suður fyrir Litlahver að Girðingu. Þaðan er líka stutt upp eftir ánni að Hverhólmum. Það hefur verið vinsælasta veiðisvæðið enda bæði friðsælt og aðgengilegt. Þokkalegur jeppaslóði er að bökkum Brúarár eftir að ekið hefur verið suður fyrir Bolhaus og yfir grunnt lækjarvað þar.

Þessi sami vegaslóði liggur áfram suður á Skálholtstunguna nær Hvítá og liggur hann á malarkambi austast á Tungunni og beint suður í 4-5 km. Við enda þessa vegar í Músanesi er aftur stutt að ganga að syðsta hluta Brúarár áður en hún fellur í Hvítá. Veiðileyfin í Skálholti gilda ekki við sjálf ármótin né við Hjarðarneshólma og því er gengið frá Músanesi í vestur að Brúará og einnig upp með allri ánni þaðan.

Hérna er kort19115-Veiðikort

Ef þig vantar aðstoð við að ganga frá bókun, hafðu þá samband í síma 897 3443 eða sendu póst á [email protected]