Já, hvað er að frétta?
Nú er miður júlí og flestar ár, hvort sem er laxveiði eða Silungsveiðiár, eru að nálgast sinn besta tíma. Eftir tvo daga verða nýjar veiðitölur birta úr ánum en nú ætlum við að kíkja yfir sviðið og tína saman nokkra fréttapunkta.

 

Veiðisvæði Lax-á

  • Veiði í Rangánum hefur verið að aukast hægt og rólega síðustu daga. Smálaxinn er að hellast inn í auknu mæli og dagarnir eru nú að skila 30-50 löxum. Það styttist í besta tímann í Rangánum og þá eigum við efalaust eftir að sjá þær rjúka upp stigatöfluna.
  • Víðidalsá er komin vel í gang. Stangir eru að ná allt að 8-16 löxum á 2 dögum og í bland eru boltafiskar.
  • Stóra Laxá er komin eitthvað yfir 70 laxa – Sogsmenn eru búnir að vera í ánni síðustu daga og og hafa veitt vel. Sem dæmi voru þeir komnir á hádegi með 15 laxa á svæði I og II eftir 3 vaktir. Töluvert er laust á næstunni og er um að gera fyrir áhugasama að skella sér, nóg virðist vera af laxi í ánni.
  • Skjálfandafljótið er í góðum gír þessa dagana og virðast sum holl ekki vera í neinum vandræðum með að fylla uppí kvótann sem er 12 laxar. Skjálfandafljótið er ein af þeim Ám sem allir þurfa að kíkja í, amk. einu sinni.
  • Svartá í Húnavatnssýslu virðist vera komin í gang en 2ja daga holl sem var að enda veiði nú í hádeginu var með 17 laxa.
  • Síðan eru einnig mjög jákvæðar fréttir úr Krossá í Bitru, Hvannadalsá, Laugardalsá og Halla á Skagaströnd.

Aðrar ár

  • Fréttir úr Hólsá segja að stórar göngur fari um svæðið á hverjum degi þessa dagana. Töluvert af laxi og birtingi hafa veiðst og í síðustu viku kom einn 14 birtingur á land. Þessar fréttir ríma við þær fréttir sem berast úr Rangánum, sem eru fyrir ofan Hólsá í vatnakerfinu.
  • Góður gangur er í Búðardalsá þessa dagana enda hefur mikið af fiski gengið í ána og margir hyljir gjörsamlega pakkaðir af laxi. Á hverjum morgni eru nýjar torfur í Sjávarhyl sem eftir hádegi eru gengnar uppí hyljina fyrir ofan. Það er gaman í Búðardalsá í sumar. Hér eru laus holl í ánni í lok sumars.
  • Nessvæðið í Laxá í Aðaldal er að skila vænum löxum, næstum hvern einasta dag. Gaman er að sjá munin á þessu svæði nú í samanburði við sumarið í fyrra.
  • Mjög góðu holli í Hrútafjarðará var að ljúka. 21 lax kom á land í hollinu og mjög margir fiskar losuðu sig við fluguna áður en að landi var komið. Frábær tíðindi í Hrútunni og gott vatn er greinilega að skila eðlilegri veiði í ár.
  • Fréttir bárust að því í gær að flottar göngur væru að skila sér uppí Veiðisvæði Jöklu og Fögruhlíðará. Átta laxar veiddust á morgunvaktinni og mikið líf sást víða.
  • Gufuá er á fínu róli. Um helgina náði áin því að komast yfir heildarveiði síðasta sumars. Vel er selt í ána þessa dagana en lausir dagar þegar komið er inní ágúst. Sjá hérna.

[email protected]