Nú hafa þau félög sem fara með veiðifrétt í Hlíðarvatni í Selvogi borið saman bækur sínar og gert sumarið upp. Þau fimm veiðifélög sem fara með veiðiréttinn eru SVH, SVFS, Ármenn, Stakkavík og Árblik í Þorlákshöfn. Samtals eru leyfi fyrir 14 dagstangir í Hlíðarvatni.
Veiðin í sumar var 28% meiri en sumarið 2012. Öfgarnar í veðurfarinu síðustu sumur hafa haft mikil áhrif á veiðina, bæði á skilyrði í vatninu og veiðisóknina sjálfa.
Í sumar voru 936 bleikjur skráðar í veiðibækur félaganna sem er 28% meiri afli en sumarið á undan. Bleikjurnar voru þó líklega fleiri því það kemur fyrir að veiðimenn yfirgefi vatnið án þess að færa aflann í bækurnar. Eins og allir vita sem búa á suðurlandi þá var sumarið óvenju vætusamt og hafði það áhrif á ástundun veiðimanna. Í sumar voru óvenju stórar bleikjur áberandi í afla veiðimanna en yfir 20 bleikjur komu á land sem voru 54cm og stærri en slíkar bleikjur eru frá ca. 2,4 kg. Stærsta bleikjan sem var vigtuð reyndist 3,9kg og ekki má gleyma þessari 67 cm bleikju sem Stefán Hjaltested veiddi í júlí. Fyrir utan þessar stærstu, þá komu margar á land sem voru á bilinu 1,5-2,4 kg.
{gallery}hlidarvatn2{/gallery}
Veiðimálastofnun hélt áfram að rannsaka Hlíðarvatn og fiskistofna þess í sumar. Bæði var fylgst með hita vatnsins á ýmsum stöðum og sýni tekin, bæði með rafveiðum og netaveiðum. Skýrsla sumarsins mun ekki liggja fyrir, fyrr en síðar í vetur en fyrstu niðurstöður benda til að skilyrði í vatninu hafi verið góð í sumar og ástand stofna gott.
Síðasta vetur tók veiða.is veiðileyfi Árbliks í Hlíðarvatni, í sölu hér inn á veiða.is. Í gegnum það samstarf eignaðist Hlíðarvatn marga nýja fylgismenn. Margir þeirra sem keyptu leyfi hér á veiða.is voru að fara í fyrsta skipti í vatnið og líkaði það almennt vel. Árblik á veiðirétt fyrir 2 stangir í vatninu og fylgir fínt veiðihús með leyfunum. Verði veiðileyfanna hefur verið stillt í hóf og kostuðu 2 stangir + hús, samtals frá 6-12 þús. í sumar.