Gufuá2018-06-19T09:17:31+00:00

Project Description

Gufuá

Gufuá

Fjöldi stanga: 2 stangir.
Veiðitímabil: 21. júní – 20. september
Daglegur veiðitími: 07.00 – 13.00 og 16.00 til 22.00.
Leyfilegt agn: Fluga, maðkur og spúnn.
Veiðifyrirkomulag: Seldir eru 1 eða 2 heilir dagar.

HÉR ERU KORT AF GUFUÁ: NR. 1NR. 2

Gufuá í Borgarfirði er Bergvatnsá sem rennur til sjávar í ósa Hvítár. Áin er 2ja stanga laxveiðiá sem geymir sjálfstæðan laxastofn. Á þurrka sumrum getur efri hluti árinnar verið vatnslítill, en neðri hlutinn er af öðrum toga. Þar hefur áin grafið sig niður í tímans rás og felur fiskurinn sig í djúpum álum og dimmum hyljum. Sjávarfalla gætir í neðstu veiðistöðum Gufuár. Ekki er þó veitt í saltvatni, heldur ýta sjávarföllin ferskvatni úr vatnakerfi Hvítár, uppí Gufuá. Þegar flæðir að lifna hyljirnir því við og takan getur verið grimm.

KAUPA VEIÐILEYFI Í GUFUÁ

Veiðihús

Við ána er lítið veiðihús með fjórum kojum, eldunaraðstöðu, grilli, borðbúnaði og salerni. Húsið er án rafmagns og veiðimenn þurfa að taka með sér kol, sængurfatnað tuskur og annað sem þeir telja sig þurfa. Ekki er erfitt að finna húsið. Búið er að setja niður nokkur skilti frá brú yfir Gufuá við Ölvaldstaði og niður eftir sem eiga að vísa mönnum veginn sé þeim fylgt. Ekið er frá Borgarnesi þangað til komið er að Ferjubakkavegi nr. 530. Beygt til hægri inn á veginn. Yfir Gufá við Ölvaldsstaði. Malbikið ekið á enda. Beygt til hægri þegar malbikinu sleppir og svo tekin vinstri beygja rétt áður en kemur að Ferjubakkabæjum. Sá slóði ekinn niður að Hvítá og alveg niður á sand. Veiðihúsið er ekki litla húsið sem blasir við á vinstri hönd, heldur er haldið áfram yfir sandinn sem er grjótharður og vel fær og yfir á ásinn sem blasir við hinum megin við sandflákann. Slóðin er mýkri þegar upp er komin og ekki fær litlum bílum. Slóðin kvíslast í tvennt. Hægri slóðin valin og veiðihúsið er fyrsta hús á hægri hönd og merkt með skilti „Veiðihús Gufuá“. Vert er að geta þess að sjávarfalla gætir á sandinum og í allra stærstu straumum gætu menn þurft að bíða af sér háflæðið í klukkustund eða svo. Veiðimenn fara þetta auðvitað á eigin ábyrgð og eru beðnir um að sýna fyllstu aðgát.

Veiðin í Gufuá

Fyrst á veiðitíma er ekki óalgengt að urriðar 1-3 pund renni sér á krók veiðimanna en þeim fækkar þegar líður á sumarið. Ekki er óalgengt að setja í sjóbirting í ánni. Besti tíminn til veiða í Gufuá líkt og í fleiri ám í Borgarfirði er júlí. Veiðireynsla á stöng er enn takmörkuð og skráningu í veiðibók hefur verið ábótavant undanfarin ár. Eðlileg veiði í ánni er sennilega á bilinu 150-220 laxar á tvær stangir. Tvö ár eru þar undanskilin. Árið í fyrra sem var hörmulegt og skilaði einungis 60 löxum og árið í hittiðfyrra sem var afbragð og skilaði yfir 300 löxum. Bæði árin voru óeðlileg, en það er ekki á vísan að róa. Vert er að geta þess að þessi veiði sem hér um ræðir er einungis brot af því sem veitt var í net á árum áður. Í ánni er sterkur laxastofn og gaman að ganga með efri hluta árinnar seinni hluta september og í október, þar sjá má laxapör um allt á hrygningarstöðum. Í ánni eru merktir ríflega 50 veiðistaðir en reynsla síðustu ára sýnir að þeir eru mikið fleiri og stór hluti neðra svæðis er ókannaður með tilliti til stangveiða. Fram til þessa hefur mest verið veitt á maðk en það er að breytast hratt og nú í ár (2015) er tæpur helmingur fiska tekinn á flugu.
Efra svæðið er afar viðkvæmt fyrir vatnsleysi. Í þurrkasumrum veiðist því mest í neðstu 10 veiðistöðunum. Í rigningarsumrum ryðst fiskurinn upp á efra svæðið og þá geta ævintýrin gerst. Minnst veiðist á miðsvæðinu.

Til einföldunar má skipta ánni í þrennt.

gufua-veidiI. Efsta svæðið
Frá þjóðvegi og aðeins upp fyrir Laxholt. Þar skiptast á gljúfur og birkivaxnir ásar með litlum breiðum og strengjum. Svæðið getur verið algerlega frábært til veiða – ef um nægt vatn er að ræða. Í vatnsleysi tekur því ekki að fara upp eftir.
II. Miðsvæðið
Frá brú á þjóðvegi og niður að veiðistað nr. 11. Reynsla undirritaðs er að þar veiðist sjaldan fiskur nema í mjög miklu vatni og verður ekki fjölyrt um það frekar nema að sjálfsagt er að fara þar um í vatnavöxtum og nota tækifærið þegar svæðið gefur en það er mjög veiðilegt þegar nægt er vatnið.
III. Neðsta svæðið
Sjávarfalla gætir í neðstu 10 veiðistöðunum. Vatnið sem upp kemur er ekki salt, heldur vatn úr Hvítá. Á neðsta svæðinu er áin skipgeng að stærstum hluta. Fiskurinn bíður eftir því að komast upp á efra svæðið og því getur veiðin í þessum 10 stöðum verið ævintýralega góð séu skilyrði rétt. Búið er að setja niður garða í árfarveginn og stoppar fiskur við þá á flóðinu. Það er afar sérstök upplifun að veiða ána í báðar áttir fyrst þegar flóðið fossar upp og svo þegar vatnið þrumast niður aftur. Oft situr fiskur eftir þegar fellur frá og gaman að kljást við hann á flugu. Í ljós hefur komið að veiðistaðir eru mikið fleiri á neðra svæðinu en talið var. Undirritaður hefur til dæmis gert góða veiði á flugu með því að kasta í alla bolla og eyður í sefinu sem eru frá veiðistað nr 1. og niður á nr. 0. Eftir er að merkja þá staði en þeir eru nokkrir og virðast lítið breytast milli ára og eiga því skilið nafngiftina veiðistaður. Þar fyrir neðan fara fáir en þar er örugglega að finna veiðistaði líka það er bara ekki búið að staðsetja þá enn þá. Reynsla undirritaðs er að lítið sé varið í að vera á á veiðistöðum 0 og upp á 1 á flóðinu – það er að veiðast vel þarna á háfjörunni – ekki á flóðinu eins og margir halda.

gufuaVeiðistaðalýsingar verða að bíða betri tíma.

Ég læt nægja að nefna tvo af mínum uppáhaldsstöðum. Óperuna, veiðistað nr. 0 sem heitir svo vegna þess að maður stendur eins og hetjutenór á sviði að þenja sig með fluguna. Þetta er mikil og lygn breiða þar sem von er á fiski þar sem kvíslarnar koma saman og alveg niður á beygju. Fiskurinn getur legið allstaðar á breiðunni og hér þarf því að kemba vandlega og þaulkasta. Ofarlega á breiðunni er 2-3 fermetra sefbrúskur sem lítur öðruvísi út en annað sef meðfram bakkanum. Þessi stubbur er eini staðurinn þar sem hægt er að standa með góðu móti í sefinu og þarna er gott að landa. Brúskurinn heitir því Bryggjan. Þarna getur veiðst óhemju mikið af fiski sérstaklega í þurrkasumrum þegar fiskurinn kemst ekki upp á efra svæðið. Á neðsta svæðinu er mikilvægt að vera með stóran skaftlangan háf og sterka tauma því þar er mikið sef sem fiskurinn er slyngur að nota til að slíta úr sér.

gufua-fiskarHinn veiðistaðurinn sem ég vil gera að umtalsefni er Hlaupastrengur á efra svæðinu. Þetta er stuttur og stríður strengur sem heitir svo vegna þess að líklegast er að fiskur sem tekur rjúki af bragði niður snarbrattar flúðir. Þá er ekkert að gera nema að hlaupa á eftir honum þessa 30 metra niður í Berghyl með stöngina á lofti og vona það besta. Af þessum sökum er auðvitað skynsamlegt að byrja á því að veiða Berghyl og fara svo í Hlaupastreng. Berghylur er viðkvæmur og fiskur sem kemur í loftköstum niður úr Hlaupastreng styggir allt í Bjarghyl þannig að óveiðandi er í langan tíma á eftir. Allir þeir fiskar sem ég hef tekið á þessum stað hafa verið miklar gleðisprengjur vegna hlaupanna og frábær bónus á veiðina að vera í hláturskrampa við löndun. Fiskur getur legið vinstra megin alveg þar sem fellur ofan í strenginn og svo hægra megin við stein sem er í neðsta þriðjungi strengsins. Hlaupastrengur er einstaklega fallegur í miklu vatni en er ekki ekki veiðistaður í þurrkum.

Flugur, línur og stangir

Hefðbundnar Borgarfjarðarflugur gefa vel. Sjálfur er ég hrifinn af rauðri Frances og Sunray Shadow. Veiðireynslan er ekki meiri en svo á flugu að eftir er að koma í ljós hvaða flugur gefa best. Sérstaklega á neðri hlutanum þar sem mikið er af sefi. Menn komast vel af með flotlínu í allri ánni og stangir nr. 5-6. Sjálfur nota ég stöng nr. 8 til þess að eiga auðveldara með að stýra fiski í sefinu á neðstu veiðistöðunum. Þangað til að ég skipti yfir í stærri stöng, missti ég óhóflega marga fiska í sefinu. Geri það raunar enn. Sefið gerir viðureign við laxinn skemmtilega krefjandi og eykur enn á spennuna. Sjálfsagt er að nota sterkari tauma en gengur og gerist í Borgarfjarðarám, minna en 15 punda taum myndi ég ekki mæla með, laxinn slítur grennri tauma auðveldlega nái hann að komast augnablik í sefið.

Það sem hér er skrifað er grundvallað á veiðireynslu minni og minna félaga við ána. Það verður spennandi að sjá hvernig þróunin verður eftir því sem reynsla af veiði í ánni eykst.

Spenntar stangir veiðimenn og góða skemmtun!
Gylfi Jón Gylfason

Hafðu samband

Tölvupóstur: info@veida.is
Sími: 897 3443

Facebook