Project Description

Þingvallavatn

Staðsetning: Þingvallavatn er í Þingvallasveit í Bláskógabyggð í um 50 km fjarðlægð frá Reykjavík.
Veiðitímabilið: Nær frá 1. maí til 15. september en veiðibann er í Ólafsdrætti frá og með 1. júlí til 1.september vegna hrygningar kuðungableikjunnar.
Veiðileyfi: Dagsveiðileyfi kostar 2.000 kr. fyrir manninn. Frítt er fyrir börn í fylgd með fullorðnum (kaupa þarf að minnsta kosti eitt leyfi). Veiðikortið sem gildir fyrir allt sumarið kostar 6.900 krónur.
Daglegur veiðitími: Veiðitíminn er frjáls.
Veiðistaðir: Helstu veiðistaðir eru í Vatnskoti, Vörðuvík, Öfugsnáði, Nes og Nautatangi, Vatnsvik og Hallvik.
Leyfilegt agn: Einungis er heimilt að nota flugu, spún og maðk sem agn við veiðar í Þingvallavatni, innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Notkun annars agns en hér greinir er alfarið óheimil. Stangveiði má aðeins stunda frá landi og notkun hverskonar báta eða flota er bönnuð.

vatninu finnast 3 tegundir ferskvatnsfiska af þeim 5 sem finnast á Íslandi, urriði bleikja, og hornsíli. Talið er að þessar þrjár tegundir fiska hafi allar lokast í vatninu í kjölfar síðustu ísaldar þegar land lyftist við suðurenda Þingvallavatns.

Þingvallavatn er í sigdæld sem nær frá Langjökli suður í Hengil og frá Botnssúlum í vestri til Lyngdalsheiðar í austri. Þingvallavatn er stærsta stöðuvatn á Íslandi um 84 ferkílómetrar og er yfirborð þess í um 100,5 metra hæð yfir sjávarmáli. Mesta dýpi vatnsins er 114 metrar og því nær það niður fyrir sjávarmál.

Vatnasvið Þingvallavatns hefur sömu stefnu og sprungurnar á svæðinu en tilvist þess er nátengd jarðsögu svæðisins. Á vatnasviðinu er mikil úrkoma. Um 9/10 af innstreymi vatns í Þingvallavatn kemur neðanjarðar eftir sprungum að vatninu.

Einungis um 1/10 hluti innrennslisins er yfirborðsvatn sem kemur úr ýmsum lækjum og smáám en stærst þeirra er Öxará. Það vatn sem rennur í Þingvallavatn norðan úr Langjökli er um 20-30 ár á leiðinni og talið er að á ferð sinni komi það við í möttli jarðar á um 8 kílómetra dýpi. Rigningin sem fellur á hraunin skilar sér á 2-4 mánuðum í Þingvallavatn.

URRIÐINN

bakvid stein_350x262Frægð urriðans byggist fyrst og fremst af því hve mikilli stærð hann getur náð og hve mikið var af honum. Eftir að urriðinn lokaðist inni í Þingvallavatni í kjölfar seinustu ísaldar fann urriðinn góðar aðstæður til búsetu og greindist í marga stofna víðsvegar um vatnið.

Þekktasti stofninn tengdist Efra-Sogi sem var hið náttúrulega útfall Þingvallavatns til suðurs og annar þekktur stofn hefur hrygningarstöðvar í Öxará. Helstu ástæður þess að Efra-Sog fóstraði stærsta urriðastofn vatnsins voru mikill straumur og ármöl sem mynduðu góð skilyrði fyrir hrygningu urriðans og uppvöxt bitmýs sem urriðinn nærðist á.

Urriðinn getur náð ótrúlegri stærð sem áður fyrr dró að veiðimenn víðsvegar frá en veiðibækur sýna að ekki var óalgengt að fá milli 20-30 punda urriða.

BLEIKJA

BleikjutegundirThingvallava_SmallÞingvallavatn er eina þekkta vatnið í heimi þar sem fjögur afbrigði bleikju finnast. Bleikjan í Þingvallavatni er gott dæmi um hvernig tegundir þróast og laga sig að umhverfi sínu þar sem þessar fjögur afbrigði hafa þróast úr einni tegund á einungis 10000 árum. Bleikjan hefur lagað sig að tveimur megin búsvæðum vatnsins, vatnsbolnum og botni vatnsins.

Aðstæður á þessum búsvæðum eru ólíkar og því hefur bleikjan þróast á mismunandi hátt. Í vatnsbolnum er fæða bleikjunnar á talsverðri hreyfingu og fiskar hafa lítið skjól fyrir ránfiskum. Bleikjan sem hefur þróast við þessar aðstæður í vatnsbolnum er straumlínulaga og jafnmynnt.

Sílableikjan verður allt að 40 cm að lengd en murtan er mun minni, oftast um 20 cm að lengd. Vatnsbotninn er megin búsvæði kuðungableikjunnar og dvergbleikjunnar. Þar er nóg fæða og fylgsni gegn ránfiskum. Bæði afbrigðin eru undirmynnt sem auðveldar þeim að taka fæðu af botninum.

Kuðungableikjan verður allt að 50 sentimetrar að lengd en dvergbleikjan stendur undir nafni þar sem hún er oftast um 10-13 sentimetrar.

Dvergbleikjuna má oft sjá í Flosagjá þar sem hún skýst undan peningum sem ferðamenn henda í gjánna.

HORNSÍLI

Hornsíli eru mikilvæg fæða fisks í Þingvallavatni. Þau hafa lagað sig að umhverfi Þingvallavatns á sama hátt og bleikjan þar sem tvö afbrigði hornsíla hafa þróast. Annað afbrigðið heldur sig í gróðurbreiðum á 20 -25 metra dýpi þar sem góð búsvæði má finna en hitt afbrigðið heldur sig á minna dýpi innan um hraungrýti. Hornsílin eru langalgengasti fiskurinn í vatninu en talið er að um 85 milljonir hornsíla séu í Þingvallavatni.

Lífríki vatnsins

DSC01109_350x467Hin nánu tengsl á milli vistkerfis Þingvallavatns og jarðsögunnar skapa Þingvallavatni sérstöðu meðal vatna heimsins. Meirihluti vatnasviðsins er þakið hrauni og vatn hripar þar auðveldlega í gegn. Ungur aldur hraunanna gerir það að verkum að upptaka steinefna er mikil í grunnvatninu sem er ein af undirstöðum fjölbreytts lífríkis í Þingvallavatni.

Vegna landsigs og hrauns skapast fjölbreytni í búsvæðum, til dæmis fylgsni fyrir fiska í gjám og gjótum með strandlengju Þingvallavatns. Þingvallavatn er sérstaklega frjótt og gróðursælt þó svo að það sé mjög kalt. Um þriðji hluti botnsins er þakinn gróðri og magn þörunga er mikið.

Lággróður nær út á 10 metra dýpi en hágróður myndar stór gróðurbelti á 10-30 metra dýpi. Um 150 tegundir jurta og 50 tegundir smádýra beita sér á þennan gróður, frá fjöruborði og út á mikið dýpi. Í fjöruborðinu lifa 120 þús. dýr á hverjum m2 en á 114m. dýpi lifa um 10 þúsund. Ein nýjasta tegundin sem hefur uppgötvast í Þingvallavatni er náhvít og blind marfló. Hún hefur lifað í grunnvatni í hellum í milljónir ára og staðið af sér ísaldir og eldsumbrot.

Heimildir: www.thingvellir.is og www.arvik.is. Kortin eru fengin að láni á vef árvik.is og eru unnin af Ólafi Valssyni.

Hafðu samband

Tölvupóstur: info@veida.is
Sími: 897 3443

Facebook