Hlíðarvatn í Selvogi er eitt gjöfulasta vatn til bleikjuveiða á landinu. Vatnið er 332 hektarar að flatarmáli eða 3,3 ferkílómetrar. Það er fremur grunnt og meðaldýpi þess er um 2,9 metrar. Mesta dýpi er fimm metrar samkvæmt mælingum í apríl 1964. Afrennsli úr vatninu er Vogsós en ekkert sjáanlegt yfirborðs vatn rennur í vatnið. Af rúmmáli vatnsins og afrennsli má ráða að það endurnýjar sig á tæpum 39 sólarhringum. Hlíðarvatn er í eigu Strandarkirkju en kirkjan á jarðirnar fjórar sem umlykja vatnið. Strandarkirkja í Selvogi er víðfræg vegna þess hve árangursríkt það þykir að heita á hana. Margar þjóðsögur eru til úr Selvogi og gera þær, ásamt hrjóstrugri og tilkomumikilli náttúru, dvöl við Hlíðarvatn áhrifaríka og ánægjulega.
Umhverfi Hlíðarvatns er mikilfenglegt, náttúrufegurð mikil og fjölbreyttni fugla og dýralífs áberandi. Algeng stærð bleikju í Hlíðarvatni er 5-700gr. Iðulega veiðast þó bleikjur sem eru 1-2 kg og á hverju sumri sjást nokkrar um eða yfir 3 kg.
Hlíðarvatn í Selvogi er á milli Þorlákshafnar og Krýsuvíkur. Hlíðarvatn er ca. 50 km frá höfuðborgarsvæðinu ef ekið er um Krýsuvík en um 60 km ef ekið er um Þrengsli. Veiðitímabilið nær frá 1. mai til 30. september.
Fimm veiðifélög skipta veiðidögum með sér í vatninu. Stangveiðifélag Hafnafjarðar er með 5 stangir, Ármenn 3, Stangveiðifélag Selfoss 2, Stangaveiðifélagið Stakkavík 2 og Árblik í Þorlákshöfn er með 2 stangir í vatninu. Við fjöllum nánar um Árblik hér að neðan.
Veiði í Hlíðarvatni hefur sveiflast nokkuð undanfarin ár. Sem dæmi um veiðitölur úr Hlíðarvatni, þá veiddust 2.452 bleikjur árið 2002. 1.480 árið 2007. 3.663 árið 2009 og 2.626 sumarið 2010.
Góðar flugur: Peacock ýmis afbrigði, Vinyl ribb, Tailor, Krókurinn, og margar fleiri. Bleikjan getur verið dyntótt og þarf að prófa sig áfram með flugur, taumlengd, línuþyngd ofl. eftir aðstæðum.
Sjá laus veiðileyfi hjá Árblik hér.
Árblik
Stangaveiðifélagið Árblik er eitt þeirra félaga sem leigir veiðirétt í Hlíðarvatni. Félagið var stofnað 1988. Félagið leigir út 2 stangir ásamt veiðihúsi. Stangirnar eru leigðar út saman. Húsið er notalegt, gistrými er fyrir 5. Húsið er gaskynnt og sólarsella sér um vatnið og ljósið.
Leigutaki ber ábyrgð á skemmdum á húsinu er orðið geta á meðan dvöl hans stendur. Leigutaki
Þarf að hafa með sér diskaþurrkur og borðtuskur, þrífa húsið vel fyrir brottför og taka með sér allt rusl.
Veiðimenn eru hvattir til sýna ávallt góða umgengni og virða almennar siðareglur.
Veiðimenn fá upplýsingar um nr. að lyklahúsi þegar þeir kaupa veiðileyfi.
Tvær stangir eru leyfðar á svæðunum og eru þær seldar saman.
Veiðikort: Gott veiðikort er í veiðihúsinu.
Veiðibók: Liggur fram í veiðihúsinu. Mikilvægt að skrá allan afla.
Verð veiðileyfa er á bilinu 8-12.000, fyrir báðar stangirnar.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar um laus veiðileyfi.
Kort af Hlíðarvatni