Umhverfi Krossár er afar fallegt, vaxið kjarri og lyngi, og með útsýni út á Breiðafjörð.Við eðlilegar kringumstæður er hún fremur vatnslítil og því nauðsynlegt að fara með gát að veiðistöðum. Krossá rennur niður Villingadal og er fiskgeng um 12,4 km. Þessi netta laxveiðiá býr yfir 40 fjölbreyttum veiðistöðum; strengjum og hyljum, þar sem maðkur fer víða vel en einnig er heimilt að veiða á flugu. Vegslóði liggur með ánni, sem fær er flestum fólksbílum nema efsti hlutinn, sem er eingöngu jeppavegur. Sumarið 2010 veiddust 254 laxar í Krossá. Athugið að kvóti er á veiðinni, 4 laxar á stöng á dag eða samtals 16 laxar á tvær stangir á tveimur dögum.

Veiðihús:

Nýlega endurnýjað tveggja bursta hús. Tvö svefnherbergi með rúmstæði fyrir 5 manns og aukadýnur. Í húsinu eru sængur og koddar en veiðimenn þurfa að taka með sér rúmfatnað og hreinlætisvörur. Veiðimenn sem eru að hefja veiði á hádegi mega koma í húsið einni klukkustund áður en veiði hefst. Veiðimönnum ber að ganga vel um, ræsta húsið fyrir brottför, og taka allt rusl með sér.

Leiðarlýsing:

Sé ekið um Hvalfjarðargöng er Krossá í 218 km fjarlægð frá Reykjavík. Ekið er sem leið liggur um Norðurárdal, þjóðveg nr. 60 um Bröttubrekku og í gegnum Búðardal. Styst er að aka um Svínadal að Skriðulandi (Jónsbúð) í Saurbæjarhreppi og þaðan eftir Klofningsvegi nr. 590, út Skarðsströnd að Krossá og upp til vinstri að bænum Á. Klofningsvegur er hringvegur um Fellsströnd og er það afar falleg leið en um sex kílómetrum lengri. Hér er ríki arnarins og ekki er óvenjulegt að veiðimenn sjái konung fuglanna á leið sinni á stefnumót við konung fiskanna í Krossá.

 

Almennar upplýsingar

Staðsetning: Skarðströnd í Dalasýslu, 218 km. frá Reykjavík.
Veiðitímabil: 1. júlí til 20. september
Besti tími: Miður Júlí – seint í Ágúst
Lengd: 12,4 km með um 40 merktum veiðistöðum. Eftir 1. september er veiði óheimil ofan ármóta við Krossdalsá.
Meðalveiði seinustu :
Stangir: 2
Veiðileiðsögumenn: Ef óskað er eftir
Veiðihús: Án þjónustu
Staðsetning (Google)

Allar nánari upplýsingar um Krossá, s.s. laus veiðileyfi, er hægt að nálgast á Hreggnasi.is. Einnig er hægt að hringja í síma 577 2230 & 898 2230.