Silungasvæði Fossár er 2ja stanga veiðisvæði sem nær frá Háafossi að ofanverðu að Hjálpafossi að neðanverðu. Þessir fossar eru ófiskgengir en á milli fossana er mikið magn af urriða, bæði stórum og smáum. Háifoss er næst stærsti foss landsins og það getur verið ansi tilkomumikið að standa fyrir neðan hann og veiða fosshylinn, sem gefur oft góða fiska.

Efri hluti silungasvæðis Fossár rennur í Gljúfri. Fáir veiðimenn veiða þetta svæði en þegar það er gert, þá hefur það stundum gefið mjög góða veiði. Þegar neðar er komið þá má finna fisk víða, á liggnum, í strengjum eða undir bökkum. Veiðistaðir eru ekki merktir við Fossá og krefst þetta veiðisvæði því þess að veiðimenn séu duglegir að ganga, leita og prufa sig áfram.

Veitt er á 2 stangir í Fossá og eru þær seldar saman í pakka. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt.

Í maí og fram til 15. júní er silungasvæði Fossár, svæðið fyrir ofan Hjálparfoss, á 50% kynningarverði. Dagurinn kostar kr. 10.000 og innifalið er leyfi fyrir 2 stangir.