Norður II – Fjallið

3 stangir í 2 daga í Norðurá II, 12-14. ágúst 2024
Húsgjald innifalið. Uppábúðið og þrif.

Veiðitími: 16-22 og 7-13

Norðurá 

Við Norðurá gilda almennar veiðireglur, sem flestum veiðimönnum eru kunnar. Auk þess gilda sérreglur fyrir ána sem hér fara á eftir. Almennt eru veiðimenn beðnir um að ganga um íslenska náttúru af virðingu, nota þau veiðitæki sem heimil eru og hirða eftir sig allt rusl.

Veiðiverði veiðifélags Norðurár er heimilt að skoða veiðitæki og afla. Sími veiðivarðar er 860-0333.

Norðurá I og II er einungis leyft að veiða á flugu og nota fluguveiðitæki.

Veiðitími er frá 08-13 og 16-22 frá opnun til 14. ágúst. Á þeim tíma er mæting í veiðihús kl. 14:30. Eftir 14. ágúst breytist veiðitíminn og er frá 08-13 og 15-21, þá er mæting í veiðihús kl 14:00.

Umgengni við ána á að vera veiðimönnum til fyrirmyndar. Ekkert rusl skal vera á bakkanum er veiðimaður yfirgefur veiðistað.

Skylt er að skrá allan afla í veiðibók sem liggur frammi í veiðihúsinu.

Vinsamlegast athugið að Veiðiréttareigendur við Norðurá hafa samþykkt fyrirmæli Veiðimálastofnunar, VMST, um að skylt sé að sleppa öllum tveggja ára laxi sem er 70 cm eða stærri. Þetta er gert í því augnamiði að vernda stórlaxastofn árinnar.
Leyfilegt er að drepa 1 smálax á dag per stöng. Vinsamleg tilmæli til veiðimanna er að sleppa öllum veiddum laxi, einkum hrygnum.

Um Norðurá II
Norðurá er dragá og vatnsmagnið getur verið mjög breytilegt. Fiskurinn færir sig því til í hyljunum eftir vatnsstöðu og hefur áin því margar ólíkar ásjónur. Heillandi laxveiðiá í fögru umhverfi.

Efsti hluti Norðurár, Fjallið, hefur allt til að bera fyrir veiðimenn sem þyrstir í ævintýri í fallegri en um leið ögrandi náttúru. Bæði er hægt að rölta um grónar grundir niðri á flatlendinu og reyna á sig fram til heiða í því dæmigerða landslagi er þar gefur, klungur og klettum. Áin er heillandi þar sem hún streymir fram ýmist lygn eða stríð, og skiptast á strengir og breiður, fossar og flúðir. Veiðivonin er rík, ekki síst er líða fer á sumarið og er haustar skemma ekki hinir fjölbreyttu haustlitir náttúrunnar fyrir.

Á efsta hluta veiðisvæðisins uppi á heiðinni, frá ármótum Norðurár og Hvassár rennur áin um grófar malareyrar en fellur síðan í gljúfrum með fjölmörgum og breytilegum veiðistöðum. Þarna er mikil náttúrufegurð og auðvelt fyrir veiðimenn að gleyma sér umvafðir hamraveggjum sem lesa má úr ýmsar kynjamyndir, álfaborgir við hvert fótmál því löngum hafa Íslendingar trúað því að náttúran geymi fleira en augað sér.

Er neðar kemur í gljúfrunum er komið að Króksfossi fallegum og gjöfulum veiðistað. Fyrr á tíð komst laxinn ekki upp fyrir fossinn. En í hamfara leysingum fyrir ríflega fimmtíu árum, sprengdi áin af sér ís ofan við fossinn og braut hann stykki úr berginu á fossbrúninni, nægjanlegt fyrir laxinn til að komast upp. Er voraði sást að nú var Norðurá veiðanleg allt upp að upptökum sínum.

Kaflinn frá fossinum og niður þar sem gljúfrunum sleppir er líklega fallegasti hluti Norðurár II með fjölda veiðistaða hverjum öðrum skemmtilegri. Þetta svæði verður hverjum veiðimanni ógleymanlegt og minningarnar ylja er haust og vetur sækja að.

Á neðsta hluta Norðurár II rennur áin yfir malareyrar og við gróin tún með auðvelt aðgengi fyrir flesta veiðimenn. Á leið sinni niður gljúfrinn hefur áin stöðugt bætt við sig vatni og eru því veiðistaðir á neðsta hluta svæðisins stærri og meiri en þeir sem efstir eru. Þetta gerir umhverfið áhugaverðara og fjölbreyttara.
Veiðisvæðið nær frá og með Símastreng og upp að brú við Fornahvamm.

VEIÐHÚSIÐ HÁREKSSTÖÐUM ( Norðurá II)
Íbúðarhúsið á Hárekstöðum þjónar nú hlutverki veiðihúss. Veiðimenn sem stunda veiðar í Norðurá II hafa þarna mjög fína aðstöðu. Gert er ráð fyrir því að veiðimenn sjái um sig sjálfir og komi með eigin mat.

Við komu er húsið hreint, uppbúin rúm og hrein handklæði. Veiðimenn þurfa ekki að þrífa húsið við brottför, einstaklingur úr sveitinni sér um það ásamt því að skipta á rúmum og setja hrein handklæði. Þessi þjónusta er innifalin í verðinu.

Í húsinu er eldhús með borðstofu og setustofa ásamt borðbúnaði og eldunaráhöldum. Baðherbergi er með sturtu. Í húsinu eru fjögur svefnherbergi, 2 tveggja manna og 2 einstaklingsherbergi.
Gasgrill, bekkir og borð eru á ágætis útipalli.