Andakílsá

Veiðileyfi á vesturlandi

Staðsetning: Á vesturlandi. Í u.þ.b 39 km fjarlægð frá Akranesi og 77 km fjarlægð frá Reykjavík. Veiðihús GPS hnit: 64°33’4.29″N, 21°42’36.56″W
Akstursleið: Akrafjallsvegur (51) og Þjóðvegur (1) áleiðis til Borgarness. Ekin er Borgarfjarðarbraut (50) yfir Andakílsá og beygður er afleggja ri til hægri inn á Skorradalsveg (508). Spölkörn þaðan er afleggjarinn að veiðihúsinu, t il hægri.
Veiðisvæði: Merktir veiðistaðir eru 15 talsins auk nokkura ómerktra.
Að efsta hluta veiðisvæðisins er haldið áfram frá veiðihúsinu inn Skorradalsveg (508) og síðan beygt til hægri inn á Andakílsárvirkjunarveg (5113).
Leyfilegt er að veiða á öllu laxasvæðinu en það nær frá Andakílsárfossum niður að brú við þjóðveg og tekur þar við silungasvæðið.
Veiðivegur: Fólksbílafært er að flestum veiðistöðum eða frá nr. 1 til 8 og einnig að veiðistað nr. 15 við þjóðveg. Aðrir veiðistaðir eru í göngufæri.
Tímabil: Veitt er frá 20. júní til 30. september ár hvert.
Veiðileyfi: Eitt veiðileyfi gildir fyrir stangirnar tvær. Hafið ávallt veiðileyfi meðferðis við veiðar.
Veiðireglur: Veiðimenn eru beðnir um að tileinka sér þær veiðireglur sem gilda á veiðisvæði Andakílsár áður en haldið er til veiða. Ef veiðimenn sem eru tveir um stöng veiða báðir samtímis eða nota ólöglegt agn, varðar það brottrekstri beggja úr ánni þegar í stað, bótalaust, upptöku afla og frekari refsingu eftir því sem við á.
Leyfilegt agn: Fluga og maðkur
Kvóti: Engar reglur eru um kvóta.
Daglegur veiðitími: Frá 20. júní til 14. ágúst er veitt frá kl. 7:00-13:00 og kl.16:00-22:00. Frá 14. ágúst til 14. september er veitt frá 7:00-13:00 og 15:00-21:00. Athugið að eftir 14. september er seinni vaktin færð fram um klukkutíma eða frá kl. 14:00-20:00.

Andakílsá er þægileg og aðgengileg laxveiðiá í Borgarfirði sem lætur ekki mikið yfir sér enda er hún afar lygn og róleg. Áin er sem einn samfelldur fluguveiðistaður og hefur notið sívaxandi vinsælda veiðimanna sem hana heimsækja. Veitt er í ánni með tveim dagsstöngum frá 20. júní til 30. september ár hvert og fer SVFA með um fjórðung veiðidaga í ánni í samstarfi við SVFR.

Áin fellur úr Skorradalsvatni í Andakílsárfossa og liðast þaðan u.þ.b. 8 km löng um sléttlendið niður í Borgarfjörð. Áin skiptist í laxa og silungasvæði og er laxasvæðið um 4 km langt og nær frá Andakílsárfossum niður að brú við þjóðveg. Áin hentar afar vel til fluguveiða og fer það agn mun betur í ánni en nokkurt annað. Leyfilegt agn er fluga og maðkur.

ATH. Ekkert var veitt í Andakílsá sumarið 2017 og ekkert verður veitt sumarið 2018

Sumarið 2015 veiddust 379 laxar í Andakílsá, 2013 veiddust 346 laxar, 2012 komu 89 laxar, 2011 veiddist 181 lax og 2010 332 laxar. Árið 2009 veiddust 706 laxar á svæðinu sem er nálægt metveiðiárinu 2008 en þá veiddust í ánni 839 laxar. Sló það met rækilega út fyrra veiðimet árinnar frá árinu 1975 þegar 321 laxar veiddust.
Stórlaxar eru sjaldgæfir á svæðinu nú á dögum en uppistaðan er að jafnaði smálax á bilinu 2 til 3 kg. Stærstu laxarnir hin síðari ár hafa verið um 4.5 kg og telst það til tíðinda ef stærri laxar sjást á svæðinu.

Þrátt fyrir að vera þekkt smálaxaá nú á dögum skipar Andakílsá sér hinsvegar sess í sögunni með þeim ám sem eiga stærstu stangaveiddu laxa landsins. Snemma á fimmta áratug síðustu aldar var dreginn á land í Litluhamarskvörn 34 punda lax og árið 1948 veiddist þar 33 punda lax en nú er öldin önnur.

Veiðihús

Veiðihúsið við Andakílsá er þægilega staðsett stuttan spöl frá ánni en frá húsinu sést vel til neðri hluta veiðisvæðisins. Svefnrými er fyrir 7 manns í tveimur svefnherbergjum. Í baðherbergi hússins er sturta og við húsið er gasgrill. Við húsið er heitur pottur. Í húsinu eru sængur og koddar en veiðimenn leggja sjálfir til sængurfatnað og allar hreinlætisvörur. Ræsta skal húsið rækilega fyrir brottför.

Engar hömlur eru á veiðum í Andakílsá en veiðimenn hvattir til að sleppa sér í lagi stærri löxum.

Hafðu samband

Tölvupóstur: [email protected]
Sími: 897 3443

Facebook