Brunná í Öxarfirði
Þegar keyrt er eftir þjóðvegi nr. 87 frá Húsavík og komið í Öxarfjörðinn við Klifshaga er keyrt yfir Brunná. Brunná er þekkt fyrir stórar og vænar sjóbleikjur. Einnig er um staðbundinn urriða og bleikja að ræða. Þá er von á sjóbirtingi þegar líður á sumarið. Umhverfi árinnar er rómað fyrir náttúrufegurð og fuglalíf.
Brunná á upptök sín í heiðunum fyrir ofan Hafrafell. Má segja að þrjú vatnsföll myndi ána. Smjörhólsá og Tunguá koma sunnan með Tungufjalli e.o. Hafrafellið er kallað í daglegu tali í sveitinni. Þær sameinast 1 km áður en að Smjörhólsáin kemur saman við Gilsbakkaána. Norðan við fjallið á Gilsbakkaá upptök sín. Eftir að þessi vatnsföll þ.e. Gilsbakkaá og Smjörhólsá koma saman heitir áin Brunná og er e.t.v. þekktust undir því nafni meðal stangveiðimanna.
Veiðisvæði Brunnár er um 10 km langt með um 45 merktum veiðistöðum en það skiptist í grunninn í tvö svæði. Neðra svæðið er býsna vatnsmikið og nær frá Smjörhólsárfossi og allt niður til sjávar. Smjörhólsárfossinn er rétt ofan við bæinn Leifsstaði. Efra svæðið nær frá téðum fossi og upp að gamla bænum í Gilhaga. Efra svæði Brunnár heitir í raun Gilsbakkaá og er fremur tær og vatnslítil. Má segja að um tvö mjög ólík veiðisvæði sé að ræða. Aðgengi að efra svæðinu er best fyrirkomið með því að keyra upp veginn að Hafrafellstungu. Hægt er að fara ógreinilegan slóða rétt vestan við brúna yfir Gilsbakkaána og norður með ánni til að komast á neðstu veiðisvæði Gilsbakkarárinnar. Til að fara að efstu veiðistöðunum er best að keyra heim að Gilsbakka og ganga þaðan niður að ánni. Einnig er hægt að leggja bíl við íbúðarhúsið Klöpp sem er staðsett rétt ofan við brúna yfir ána. Árétta skal að allur utanslóðaakstur er stranglega bannaður þ.m.t. að aka yfir slegin og óslegin tún.
Til að komast að efstu veiðisvæðunum á neðra svæðinu er ekið veginn upp á Öxarfjarðarheiði og tekinn afleggjarinn að Leifsstöðum og ekið heim að bænum. Þaðan er gengið upp að Smjörhólsárfossinum sem er efsti veiðistaður Brunnár. Sú gönguferð tekur um 10 mín frá bænum. Ganga þarf í gegnum hlaðið og á bak við Leifsstaðahúsið til að finna göngustíg sem liggur í gegnum skógarlund rétt við húsið. Á þeirri leið er komið að Lækjardalshylnum sem er rétt ofan við rafstöðvarhúsið. Þann hyl er best að veiða vestanmeginn og þarf þá að vaða yfir ána neðst á brotinu. Fara þarf varlega þar sem þarna er býsna stríður straumur og grýtt.
Til að komast á miðsvæði Brunnár sem mörgum þykir eitt skemmtilegasta svæði árinnar er ekið sömu leið og að efsta svæðinu. Þ.e. í átt að Leifsstöðum og rétt eftir að ekið er yfir rimlahlið er beygt til hægri og farið í gegnum hlið og fylgt slóða að ánni. Passa þarf að fara ekki beinustu leið niður að ánni heldur skal taka beygju til hægri þegar komið er fram á brúnina þar sem sést yfir ána. Sá slóði fylgir brúninni allt að ármótum Skeggjastaðarár og Brunnár.