Norðurá
Veiðitímabil:
Norðurá I – Frá hádegi 6. júní til 12. september
Norðurá II – Frá morgni 5. júní til hádegis 1. september.
Veiðar eru ekki leyfðar fyrir ofan Króksfoss, eftir 1. september.
Daglegur Veiðitími
6. júní – 14. ágúst: Frá 08-13 og 16-22
Eftir 14. ágúst: Frá 8-13 og 15-21.
Fjöldi stanga
Norðurá I: 8 til 12 stangir
Norðurá II: 3 stangir
Silungasvæði/Flóðatangasvæði: 2 stangir.
Veiðisvæðið
Veiðisvæði Norðurár I tekur breytingum yfir sumarið. Frá 6. júní til 6. júlí (hádegi) nær veiðisvæðið frá og með Kálfhyl á Stekkssvæðinu og upp að brú við Fornahvamm. Frá 6. júlí (hádegi) og til 1. sept. (hádegi) nær veiðisvæðið frá Engjanefi við Munaðarnes til og með Hvammsleiti. Frá 1. sept. og til loka 8. sept. nær veiðisvæðið frá Engjanefi og að Króksfossi.
Veiðisvæði Norðurár II er einnig nokkuð breytilegt á veiðitimanum. 5. júní til 6. júlí (hádegi) er veiðisvæðið frá Engjanefi til og með Kálfhylsbroti. Frá 6. júlí (hádegi) og til 1. sept. (hádegi) er veiðisvæðið frá og með Rafmagnsstreng og upp að brú við Fornahvamm.
Norðurá í Borgarfirði er í hugum margra veiðimanna besta laxveiðiá landsins með um 2000 laxa árlega meðalveiði á síðustu 10 árum. Veiðisvæði Norðurár nær í heild sinni frá brú við Fornahvamm niður að ármótum Norðurár og Hvítár en áin á upptök sín í Holtavörðuvatni um 62 kílómetra frá sjó og telst vatnasvið árinnar vera um 518 ferkílómetrar. Í ánni eru um 170 merktir veiðistaðir og er fjölbreytileiki þeirra mikill, allt frá nettum strengjum upp í stórar og vatnsmiklar breiður. Veiðisvæðin í öllum sínum fjölbreytileika bjóða því upp á allt sem hægt er að hugsa sér í einni laxveiðiá. Í Norðurá eru þrír fossar helstir, Laxfoss, Glanni og Króksfoss, hver öðrum fallegri.
Um Norðurá
Norðurá í Borgarfirði er í hugum margra veiðimanna besta laxveiðiá landsins, en meðalveiði síðustu 10 ára er rúmlega 2000 laxar á ári. Áin á upptök sín í Holtavörðuvatni en hana næra einnig nokkrar þverár eins og Hvassá, Hellisá, Sanddalsá, Búðardalsá og Bjarnadalsá, svo einhverjar séu nefndar. Veiðar í þeim eru bannaðar, nema á neðsta svæði Bjarnadalsár. Veiðisvæði Norðurár nær í heild sinni frá brú við Fornahvamm niður að ármótum Norðurár og Hvítár. Lengi framan af voru fossarnir í ánni mikill farartálmi fyrir laxinn, sérstaklega Laxfoss sem er neðstur þriggja megin fossa árinnar. Hinir eru Glanni og Króksfoss. Eftir lagfæringu á Laxfossi, árið 1930, átti laxinn greiðari leið fram Norðurárdal, en þó ekki lengra en að Glanna, sem er næsti foss fyrir ofan. Þar var reynt að lagfæra fyrir laxinn rétt eftir árið 1930 og 1964 var svo sprengt í fossinum í sama tilgangi, að greiða för laxfiska.
Það er síðan árið 1985 sem laxastigi var tekin í notkun og átti þá sá silfraði greiðari leið upp í Norðurárdal. Enn var þó farartálmi á leið hans, Króksfoss. Þar sá náttúran sjálf um verkið og í dag gengur lax upp eftir Norðurá, alla leið upp á Leitisfossum, þótt veiðisvæðið endi neðar. Í ánni eru um 170 merktir veiðistaðir. Fjölbreytileiki þeirra er mikill, allt frá nettum strengjum, gljúfrum og upp í stórar og vatnsmiklar breiður. Þrír fossar eru helstir í Norðurá eins og áður er sagt, Laxfoss, Glanni og Krókfoss, hver öðrum fallegri. Af þeim er Laxfoss líklegast sá þekktasti, og hjálpar þar kannski til nafnið á einu sögufrægasta farþegaskipi Íslendinga frá fyrri tíð.
Veiðihús
Við Norðurá eru tvö veiðihús. Efst er Skógarnef, þá aðalhúsið á Rjúpnahæð.
Skógarnef-Norðurá II. Lítið, snoturt veiðihús í landi Hvamms, staðsett á svonefndu Skógarnefi og ber nafn eftir því. Í húsinu eru þrjú herbergi og svefnloft og hafa veiðimenn sem stunda veiðar í Norðurá II þarna afdrep. Gert er ráð fyrir því að veiðimenn sjái um sig sjálfir og komi með eigin mat. Við komu er húsið hreint, uppbúin rúm og hrein handklæði. Veiðimenn þurfa ekki að þrífa húsið við brottför, einstaklingur úr sveitinni sér um það ásamt því að skipta á rúmum og setja hrein handklæði. Fyrir þessa þjónustu greiða veiðimenn samtals krónur 10 þúsund. Í húsinu er eldhúskrókur, lítil borðstofa og setustofa ásamt borðbúnaði og eldunaráhöldum. Baðherbergið er með sturtu. Aðstaða er til að gera að fiski, utan dyra, frystikista í útigeymslu, gasgrill, bekkir og borð á ágætis palli fyrir utan. Húsið stendur í fallegri kjarrvaxinni hlíð, skammt frá þjóðvegi nr. 1 og eru lyklar í lásboxi rétt við innganginn.
Rjúpnahæð-Norðurá I. Rjúpnahæð-Norðurá I. Þar er aðal veiðihúsið við ána, staðsett á samnefndri hæð. Meistarakokkurinn, Hákon Örvarsson, mun sjá til þess að maturinn gæli við bragðlauka veiðimanna á komandi sumri. Nýlega var byggt við veiðihúsið og í þeirri nýbyggingu eru 14 svefnherbergi fyrir veiðimenn, vöðlugeymsla, móttökusalur og sauna. Móttökusalur tengist við stofuna sem einnig var mikið lagfærð og úr móttökusal er svo gengið inn í matsal. Í gistiálmu er full þjónusta eins og gerist á hótelum, fæði, sængurföt, baðsloppar og handklæði. Búið er um rúmin og skipt um handklæði daglega og séð til þess að vel fari um þá veiðimenn sem sækja Norðurá heim. Óhætt er að segja að veiðihúsið sé með þeim glæsilegustu á landinu. Í setustofunni er gluggi sem aldrei verða sett gluggatjöld fyrir, en út um hann má sjá eitt fegursta útsýni við veiðiá á Íslandi. Laxfoss, Grábrókarhraun, Hraunsnefnsöxl og drottingu Borgarfjarðar, Bauluna. Þar er einnig arinn sem veiðimönnum þykir notalegt að sitja við, sérstaklega er líður að hausti.