Austurbakki Ölfusár við Selfoss, er veiðisvæði sem við tókum í sölu um mitt fyrrasumar. Um svæðið gengur mikið af fiski, bæði laxi og sjóbirtingi. Núna í vor er í fyrsta skipti sem við seljum vorveiðidaga á svæðið og óvíst hvort nokkur hafi stundað svæðið á þessum tíma árs áður. Við heyrðum frá veiðimönnum sem kíktu í stuttan tíma á svæðið í gær.
Veðrið í gær, laugardag 6. apríl, var ekki til að hrópa húrra fyrir. Hiti við frostmark og norðaustan bál – kviður yfir 20 m/s. Fraus í lykkjum og almenn leiðindi. Fyrir neðan brú/kirkjugarðinn eru nokkrir flottir merktir veiðistaðir – frá hröðum djúpum strengjum, yfir í hægar breiður. Veiðimennirnir í gær stoppuðu stutt við, enda skilyrði ekki góð. Þeir renndu snöggt yfir nokkra staði og eftir rúmlega klukkustund var pakkað saman – þá var búið að landa einum flottum urriða á flugu sem hnýtt var kvöldið áður. Sjá mynd.
Víða í ölfusá eru menn á þessum árstíma, og fram í júní, að veiða flotta sjóbirtinga. Við heyrum sögur af mörgum fiskum sem eru yfir 80 cm langir. Spennandi verður að sjá hvort við náum að birta myndir af slíkum fiskum af austurbakka Selfoss í vor. Seldir eru stakir dagar, 2 stangir í pakka – kr. 7.500 stöngin – dagurinn á kr. 15.000. Hérna má bóka daga í vorveiðina.
 
			
					 
													








 
				 
				 
				 
				 
				