Laxveiðitímabilið fór formlega af stað í dag þegar veiði hófst í Þjórsá. 18 laxar komu á land á 4 stangir. Á sama tíma komu 2 laxar á land í Hólsá, sem er vatnakerfið fyrir neðan Eystri og Ytri Rangá. Þaulreyndur leiðsögumaður við Eystri Rangá og veiðimaðurinn Arnór Laxfjörð var á ferðinni við Eystri Rangá í dag, m.a. við Bátsvaðið sem er einn aðal veiðistaðurinn á svæði 1 í Eystri Rangá – þar sá hann einn vænan, 14-16 punda lax, hreinsa sig uppúr ánni.
Allt eru þetta spennandi fréttir fyrir laxveiðimenn, ekki síst þá sem eru á leiðinni í Eystri Rangá síðar í júní. Svo er spurning hvort að laxinn sé einnig farinn að þoka sér upp í Ytri Rangá, – það er ekki ólíklegt.
 
			
					 
													 
				 
				 
				 
				 
				