Breiðdalsá – Silungasvæði – Strengir
Silungasvæðið okkar sívinsæla í Breiðdalsá verður veitt að venju frá 1. maí til 30. júní með sex stöngum og fjórum stöngum eftir það til 30. september. Helgast það af því að fyrri hluta veiðitímans er einnig víðáttumikið svæði með staðbundnum urriða í Breiðdalsá ofan Beljanda og því rúmt um stangirnar, jafnvel þó að þær standi allar vaktina í sjóbleikjunni neðst á svæðinu.
Tímabil: 1.maí – 30.september.
Veiðileyfi: Hægt að kaupa heila eða hálfa daga, eða 2-3 daga holl, allt eftir óskum veiðimanna og stöðu lausra leyfa.
Daglegur veiðitími: Veiðimenn mega haga veiðitíma að eigin óskum en þó innan 12 stunda ramma á hverjum sólarhring á ósasvæðinu en á öðrum svæðum ofar í ánni má veiða á bilinu 7-13 og 16-22 og síðsumars 15-21. Brottfarardag skal veitt til kl. 12:00.
Fjöldi stanga: Leyfðar eru 6 stangir um vorið en síðan eru 4 stangir leyfðar fra 1. júlí.
Verð: Pr. stöng á dag 14.800 kr. og eftir 1. júlí kr. 24.800 og gisting alltaf innifalinn.
Veiðireglur: Leyfilegt agn er fluga, spónn og maðkur og skylt er að sleppa aftur löxum 70 cm og stærri. Leyfilegt er að hirða tvo laxa á stöng á dag undir þeim mörkum og einnig allan silung.
Veiði síðastliðið ár: Um það bil 20 laxar, 101 sjóbleikjur og 472 urriðar/sjóbirtingar.
Þetta er fyrir löngu orðinn afar vinsæll pakki hjá okkur og hópar eru í vaxandi mæli að leita eftir því að taka sömu daga að ári. Vissulega eru veður rysjótt snemma á vorin en fiskurinn er til staðar og getur tekið grimmt, auk þess sem menn falla gersamlega fyrir veiðihúsinu okkar að Eyjum og mögnuðu umhverfinu í Breiðdalnum. Eindæma náðugt er að dvelja þar ef kuldinn nístir, skella sér þá bara í gufuna eða heita pottinn!
Fyrir sumarið 2013 verður óbreytt fyrirkomulag. Við höfum áfram á leigu íbúðarhús í Norðurdal sem mun þjóna hlutverki veiðihúss fyrir veiðimenn á tímabilinu 1. júlí – 30. september. Veiðisvæðið mun þá samanstanda af ósnum neðst í ánni ásamt svæðum efst í bæði Breiðdalsá og Norðurdalsá. Þessi svæði eru frábær í urriða sem og bleikja gengur upp í Norðurdalsá þegar líða fer á sumarið. Mikil laxavon er á öllum þessum svæðum fyrst neðst og svo á efri svæðunum þegar líða tekur á sumarið. Þetta er virkilega spennandi kostur fyrir þá sem vilja komast í góða silungsveiði með mikilli laxavon fyrir lítinn pening þar sem gisting er innifalin og veiðimenn sjá um sig sjálfir.
Nánari upplýsingar og veiðileyfi: Strengir eru leigutaki svæðisins. Alla nánari upplýsingar er hægt að fá inná www.strengir.is.
Nýtt! Það þykir mörgum langt að aka alla leið austur í Breiðdal frá Reykjavík. En nú er hægt að taka veiðijeppa á leigu á Egilsstaðaflugvelli á hóflegu verði og stytta þar með ferðatímann umtalsvert og spara líka ferðakostnað! Veiðibílar ehf munu hafa nokkra bíla á Egilstöðum sumarið 2013 og er tilvalið fyrir 3-4 veiðimenn að sameinast um einn jeppa og þar með eru veiðimenn á leið í Breiðdal komnir í veiðihús eftir rúma tvo tíma frá Reykjavík. Upplýsingar um bílaleiguna er í síma 866 3596 og á netfanginu [email protected].