Jökla og Fögruhlíðará
Heildarveiði á Jöklusvæði var 584 laxar sumarið 2016 og er þá talin með Fögruhlíðará sem gaf 100 laxa sem er met í þeirri á. Fylgir hún með Jöklu I svæðinu en Fögurhlíðarósinn er seldur sér og þar var mun einnig meiri bleikjuveiði en undanfarin ár. Aðrar hliðarár Jöklu voru í meðallagi, Kaldá og Laxá, og Jökla sjálf góð. Reyndar kom yfirfall seint í ágúst en annars hefði veiðin orðið meiri í Jöklu og einnig ef ástundun í september hefði verið meiri í þeim mánuði í hliðaránum
Um Svæðið
Jökla I og Fögruhlíðará er 6-8 stanga svæði frá og með 1. júlí til 30. september, aðallega sem laxveiðisvæði þó að silungur veiðist áfram út allt sumarið. Um er að ræða Fögruhlíðará ofan þjóðvegar ásamt Jöklu við Hvanná niður til ósa en til svæðisins teljast í leiðinni einnig Kaldá, Laxá og Fossá sem renna í Jöklu úr norðri . Þetta er gríðarlega mikið og fjölbreytt svæði þar sem veitt er í miklu vatni í Jöklu og allt niður í litlar og nettar ár eins og Laxá sem er mjög skemmtileg fyrir litlar einhendur ásamt Fögruhlíðará.
Samtals er svæðið um 40 km langt og því verður afar rúmt um veiðimenn og miklir möguleikar á því að kanna ótroðnar slóðir. Þó er góð aðkoma að mörgum veiðistöðum og ekki þörf á að ganga langar vegalengdir víðast hvar. Eingöngu er leyfð fluguveiði í júlí og ágúst enda hentar svæðið ákaflega vel til þess. Eftir það má veiða á maðk og spón. Skylt er að sleppa öllum löxum 70 cm og stærri og og hirða má tvo laxa á dag á stöng undir þeim mörkum og sleppa öðrum. Að auki er æskilegt að sleppa öllum löxum sem veiðast við Steinbogann og ofar í Jökuldal, enda eru vannýtt uppeldissvæði að finna þar uppfrá þar sem æskilegt er að leyfa honum að hrygna sem mest.
Það þykir mörgum langt að aka alla leið austur í Jöklu frá Reykjavík. En einfalt er að fjúga til Egilsstaða og leigja bíl á Egilsstaðaflugvelli og stytta þar með ferðatímann gríðarlega. Spara líka ferðakostnað ef 3-4 veiðimenn taka sig saman um einn jeppa og þar með eru veiðimenn á leið á Jöklusvæðin komnir í veiðihús eftir aðeins einn og hálfan tíma frá Reykjavík!
Veiðihús
Á bökkum Kaldár stendur nýtt og stórglæsilegt veiðihús til afnota fyrir veiðimenn á Jöklusvæðinu. Húsið sem var byggt árið 2007 býður uppá frábæra aðstöðu í sex tveggja manna herbergjum, hvert með sér baðherbergi og sturtu, upphitaðri vöðlugeymslu, aðgerðarherbergi með frystikistu, frábærri setu- og borðstofu með arin, eldhúsi með öllum nauðsynlegum tækjum og skemmtilegri verönd að flatmaga á í hléinu og góðviðrisdögum.