Fyrsti veiðidagur tímabilsins er runninn upp. Löng bið fyrir veiðimenn og veiðikonur – í gegnum kaldann og dimmann vetur. En það er eins og vetur konugur hafi ekki áttað sig á því að nú ætti hann að aðlaga sig að almanaki veiðimanna, því dagurinn í dag er jafn kaldur og napur og undanfarnir dagar.

Suðurlandið hefur það þó fram yfir norðurlandið, að hér er svo gott sem auð jörð – fyrir norðan hefur snjóað mikið og heiðarvegir eru lokaðir. Á suðurlandi hefur hiti verið fyrir neðan núllið í all marga daga í röð og norðan 10-18m/s. Á flestum ám og vötnum er ís og ís er á hreyfingu niður flestar eða allar ár.

Við heyrðum frá veiðimönnum á nokkrum af okkar svæðum. Það var yfirleitt erfitt enda náttúran og veðráttan ekki með mönnum í liði.

Við kíktum við á Úteyjarsvæðinu í Hólaá og heyrðum í hluta þeirra veiðimanna sem þar var – örfáir fiskar komu á land. Ís er á stórum hluta Laugarvatns en áin íslaus að mestu. Í svona kulda er mikilvægt að veiða bæði hægt og djúpt.

Við heyrðum frá veiðimönnum sem voru á Torfastöðum í Soginu – Skv. veður.is þá var hitastig Sogsins rétt um 1 °C og vindkviður uppí 16 m/s, beint í fangið. Þó Sogið og ekki síst Torfastaðasvæðið, sé þekkt fyrir Bleikjuna á vorin, þá er einnig staðbundinn urriði og sjóbirtingur á svæðinu. Töluverður ís er í Soginu, ekki síst við og út frá bakkanum. Veiðimennirnir voru mættir um kl. 11 og hættu um kl. 13:30 – niðurstaðan var einn urriði á land og 2 urriðar/birtingar misstir.

Við erum að bíða fregna frá fleiri svæðum.