Eins og við greindum frá hér á vefnum fyrr í haust, þá var veiðisvæði Alviðru í Soginu boðið út en það hefur verið í umsjón SVFR síðustu árin. Nokkur tilboð bárust en eigendur svæðisins ákváðu að ganga til samninga við Starir og nú er búið að undirrita samning um leigu svæðisins til næstu 5 ára.
Alviðru svæðið í Soginu er neðsta svæðið á vestur bakka árinnar og er það fornfrægt stórlaxasvæði og í gegnum árin hafa veiðimenn oft lent í miklum aflahrotum á þessu svæði. Alviðrusvæðið er 3ja stanga svæði en í sumar verða 2 stangir seldar inná svæðið, saman í pakka. Gott veiðihús er við Alviðru og þó það sé komið til ára sinna, þá hefur því verið haldið vel við og er í góðu standi.
Fluga er eina leyfilega agnið á þessu svæði og eins og tíðkast á öðrum svæðum í Soginu, þá skal sleppa öllum laxi sem veiðist. Fín bleikjuveiði er á Alviðru svæðinu og einnig veiðist sjóbirtingur og urriði.
Við munum innan skamms taka Alviðru svæðið í sölu hér á veiða.is – seldir verða 1 eða fleiri dagar í senn. Laxatíminn nær frá 24. júní og inní lok september og vorveiðin hefst 1. apríl.