Veiði í Soginu fer betur af stað heldur en mörg undanfarin ár. Misgóð ástundun hefur verið á svæðunum frá opnun en þeir sem hafa kíkt í Sogið hafa flestir annað hvort sett í laxa eða landað löxum.
Alviðran er 2ja stanga svæði á vesturbakka Sogsins, ofan og neðan Brúar – einnig neðan brúar á austurbakka. Svæðið getur bæði verið gott á göngutíma laxins en einnig þegar kemur inní tímabilið og laxinn fer að koma sér fyrir á svæðinu. Tvær stangir/veiðimenn kíktu um helgina á Alviðruna, sitt hvoran daginn, og lentu þeir báðir í fínni veiði. Tveir laxar komu á land á laugardaginn og í gær þá landaði veiðimaður 3 löxum og missti aðra 3 – allt lúsugur smálax. Flestir komu á land við Brúna.
Veiðimenn hafa einnig verið að setja í laxa í Bíldsfellinu, Ásgarði og séð laxa renna í gegnum Torfastaði.
Þó að mjög gott vatn sé í Soginu núna, mjög temmilegt, þá skal alltaf fara varlega við ána – ekki vaða lang út og veiðimenn skulu endilega nota vaðvesti. Oft er laxinn miklu nær landi heldur en veiðimenn halda.