Fjölmargir erlendir veiðimenn hafa lagt leið sína til Íslands þetta vorið til að reyna að krækja í Ísaldarurriða í Þingvallavatni. Veiðin í vatninu hefur verið upp og ofan, sum svæði mjög góð, önnur döpur og svo nokkur að sjálfsögðu þar á milli. Almenn tilmæli eru að eingöngu sé veitt á flugu, allstaðar við vatnið, fram til 1. júní. En eftir þann tíma megi einnig heimila maðk og spún. Veiðileiðsögumenn við vatnið hafa undanfarið orðið varir við veiðidóna og veiðiþjófa sem fara ekki eingöngu ekki eftir þessum tilmælum um agn, heldur ganga lengra og nota ýmsa ólöglega beitu til að egna fyrir fiskinn. Eigendur veiða.is hittu á hóp íslenskra veiðimanna nú um helgina, sem höfðu engan áhuga á að virða reglur vatnsins nú almennar siðareglur.
Við vorum staddir sunnanmegin við vatnið, eigi fjarri ION svæðinu svokallaða. Við höfðum fylgst með veiðimönnum dóla á báti fyrir utan ströndina, með færin útí öðru hverju en þess á milli keyrðu þeir um vatnið, hurfu sjónum ástundum en birtust ætíð aftur. Svo eitt sinn, þegar veiðimenn sem höfðu verið í Ölfusvatnsárósnum gengu til sinna bifreiða og héldu á brott, þá tók báturinn rakleitt stefnu á ósinn og þegar þangað var komið var agninu kastað útí. Þar dvöldu veiðidónarnir um stund, eða þar til vart var við veiðimenn ION svæðisins aftur. Ekki segir af veiði veiðidónana, við fylgdust ekki svo nákvæmlega með þeim.
Af okkur er það að segja, að við ákváðum að hvíla það svæði sem við vorum á í um klst, undir kvöld en þegar við komum aftur þá stóðu þessir veiðimenn, sem voru 3, með sínar stangir á besta staðnum á svæðinu – nú komnir í land og stóðu í flæðarmálinu. 2 þeirra hröðuðu sér með með sínar græjur uppí bíl þegar þeir sáu okkur koma en einn gat það ekki, því hann var að reyna sem hraðast gat, að draga vænan urriða á land sem hafði kokgleypt beituna hans. Hér var á ferðinni sumarhúsaeigandi á svæðinu sem fannst ekkert sjálfsagðara en að stelast með ólöglegt agn á þetta svæði, þegar hann sá okkur renna í burtu, vitandi það að við vorum með öllu leyfin á svæðinu þann dag en hann ekki. Samskipti veiða.is og þessara manna voru ekki kurteisisleg né vingjarnleg og enduðu á því að sumarhúsaeigandi keyrði upphækkaðan jeppann sinn, ógnandi, á miklum hraða í átt okkar, en hemlaði rétt áður en árekstur var.
Stór hluti þessara samskipta er til á myndbandi og á myndum, m.a. þegar urriðinn er dreginn á land og dröslað uppí bíl. Þær verða ekki birtar hér að sinni.
Við vonum að þessi hópur íslenskra veiðimanna, sem svona gengur um náttúruna og virðir engar reglur, sé ekki stór, en þó höfum við heyrt all margar svipaðar sögur að undanförnu. Við hvetjum veiðiréttarhafa við vatnið til frekari samstöðu til að koma í veg fyrir að svona „sjóræningjar“ fái ekki aðstöðu fyrir þeirra landi til að stunda svona rányrkju.