Eins og svo við höfum gert nú í tvígang áður í sumar, þá kíktum við í veiðibókina að Spóastöðum í dag. Veiði og ástundun var með minna móti framan af sumri á svæðinu en veiði hófst þann 1. apríl í Brúará í landi Spóastaða.
Síðast þegar við litum í bókin voru 112 bleikjur skráðar í hana. Nú er heildartalan komin í um 160 bleikjur. En ekki má gleyma því að sagan segir að það séu til veiðimenn sem komi í ánna án þess að skrá aflann í bókina. Langflestir fiskarnir eru veiddir á flugu, en þó nokkrir á annan agn. Þegar litið er yfir síðustu blaðsíður sést að það eru nokkrir aðilar eða hópar sem hafa veidd mjög vel á svæðinu, aðilar sem kíkt hafa við í nokkur skipti í sumar.
Helstu svæðin sem gefið hafa vel að undanförnu eru Fossbrúnin og síðan Brúin. Sem dæmi um það þá náði sami aðilinn um 10 bleikjum á Fossbrúninni sama daginn. Helstu flugur sem hafa verið að gefa eru til að mynda Babbinn, Krókurinn og Alma Rún.
Þó svo að ástundun hafi aukist á síðustu vikum í ánni, þá er hún ekki mikil. Sem dæmi um það þá er engin stöng seld frá mánudegi til föstudags í næstu viku og mjög fáir voru í síðustu viku á bökkum Brúarár fyrir landi Spóastaða.
Nú bíðum við eftir að fyrsti laxinn komi á land á Spóastöðum.