Veiðifélag Deildarár á Sléttu óskar nú eftir tilboðum í veiðirétt árinnar árin 2016 – 2019/2021, þ.e. til 3-5 ára. Óskað er bæði eftir tilboðum í veiðirétt á laxasvæðinu og á silungasvæðinu, Fremri Deildará. Sumarið 2014 veiddust um 150 laxar í ánni en veiðiálag hjá núverandi leigutaka hefur verið frekar lítið. Meðalveiði síðustu 14 ára eru 177 laxar og að auki veiðist alltaf töluvert af urriða og bleikju.
Leigutaki Deildarár í dag, Ralph Doppler, hefur verið með hana á leigu frá sumrinu 1989 eða í 26 ár og hefur hann haldið henni að mestu leyti fyrir sig og sína gesti. Á sínum tíma tók hann einnig Ormarsá á leigu, en hún fór í útboð fyrir nokkrum árum. Doppler hefur á síðustu 2 árum tekið tvær aðrar ár á leigu á vesturlandi, Dunká og Álftá á Mýrum. Hér að neðan er fréttatilkynning frá veiðifélaginu.
Fréttatilkynning
Útboð-laxveiði-Deildará
Veiðifélag Deildarár, óskar hér með eftir tilboði í laxveiði í Deildará á Sléttu árin 2016 til 2019/2021 (þ.e. 3-5 ár) að báðum/öllum árum meðtöldum.
Um er að ræða veiðirétt á Deildará sem er u.þ.b. 12 km löng. Vatnasvið árinnar er u.þ.b. 46 ferkm. Deildará er laxveiðiá á Sléttu. Veiðihús árinnar stendur rétt fyrir utan Raufarhöfn. Þrjár stangir eru leyfðar í ánni.
Veiðifélagið hefur einnig ákveðið að bjóða út veiði í Fremri Deildará, sem er silungsveiðiá.
Óskað er eftir tilboðum í bæði veiðisvæðin, sitt í hvoru lagi, sbr. útboðsgögn.
Útboðsgögn og allar upplýsingar er hægt að nálgast hjá formanni veiðifélagsins, Nönnu Höskuldsdóttur, í síma 868-8647 / 462-1288 eða á netfangið [email protected]
Frestur til að skila tilboði rennur út dags. 6. apríl 2015 kl 15:00
Tilboðin verða opnuð á Husavik Cape Hotel, Höfða 24b Húsavík. Föstudaginn 10. apríl 2015 kl 15:00 í viðurvist þeirra bjóðenda sem þess óska.
Áskilin er allur réttur til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna þeim öllum.