Það er s.s. ekki nauðsynlegt að fara mjög mörgum orðum um veiðina í Veiðivötnum í sumar. Hún hefur einfaldlega verið mjög döpur. Fyrstu tvær vikur sumarsins gáfu miklu færri urriða en mörg undangengin ár. Ef horft er til fjölda fiska, þá er talan ekki eins slæm. Bleikjuveiðin er fín eins og yfirleitt.

Sumir hafa haft það á orði að skráning bleikjuaflans hafi líklega aldrei verið jafn góð í Veiðivötnum og nú og kannski stunda fleiri bleikjuvötnin í sumar en áður. Sem dæmi um það þá er Langavatn komið í 1042 fiska en heildartalan í fyrra var 1795 fiskar. Eins má sjá að Eskivatn er komið í 183 fiska en allt síðasta sumar voru skráðir 371 fiskur í því.

Helsta skýring á slakri veiði urriða, er að sjálfsögðu veðurfarið í sumar. Kalt, blautt og stundum mjög vindasamt. Það er vonandi að veður batni fljótlega og veiðimenn fari að setja í þá stóru í Veiðivötnum.

Af vef Veiðivatna:

„Í annari veiðivikunni (26. júní – 2. júlí) veiddust 2319 fiskar, 718 urriðar og 1601 bleikja. Mestur afli kom úr bleikjuvötnunum, Langavatni, Nýjavatni, Kvíslarvatni og Snjóölduvatni. Litlissjór var bestur af urriðavötnunum. Þar fékkst 221 fiskur í annari viku. 

Alls hafa 4483 fiskar komið á land í vötnunum það sem af er sumri, sem er nokkru minna en undanfarin ár. Mestu munar þar um lakari veiði í Litlasjó.
Meðalþyngd fiska úr vötnunum er 2.08 pd. Hæst er meðalþyngdin 5.32 pd í Grænavatni. Stærsti fiskurinn það sem af er veiðitímanum er 12.0 pd urriði úr Grænavatni. Veiddist á maðk 1. júlí.“

Nánari tölur er hægt að sjá inná veidivotn.is

[email protected]