Síðustu daga hafa s.s. engar sérstakar fréttir borist af veiði á þeim svæðum sem veiða.is fylgist hvað mest með. Veðrið hefur sett nokkuð stórt strik í reikninginn hjá veiðimönnum, enda kom veturinn í bakið á þeim sem voru svo bjartsýnir að halda að sumarið væri komið. En við skulum samt reyna að segja einhverjar fréttir.

  • Heiðarvatn – Veiða.is heyrði frá veiðimönnum sem voru í vatninu kringum síðustu helgi. Sögðu þeir að heldur hefði dofnað yfir veiðinni. Náðu þeir um 15 fiskum, nokkrum vænum.
  • Brúará – En er það helst að veiðimenn láti sjá sig þar um helgar. Ef skoðuð eru laus veiðileyfi í ánni fyrir næstu daga sést að enginn verður líklega á ferðinni á bökkum árinnar á næstunni. Á meðan veiðist líklega lítið.
  • Laugarvatn/Apavatn – Ekki hafa margir verið við veiðar í Laugarvatni að undanförnu. Þó heyrðist af veiðimönnum sem voru þar um síðustu helgi og náðu þeir nokkrum fiskum. Ég held að svæðið verði nokkuð vinsælt um leið og vorar á ný.
  • Ósasvæði Ásanna – Veiði hófst á svæðinu þann 1. maí. En svæðið hefur nánast ekkert verið stundað á þeim tíma sem liðin er af mánuðinum. Veðrið hefur m.a. spilað þar inní, menn sem áttu daga á svæðinu, nýttu þá ekki vegna veðurs. Engar fréttir hafa borist af aflabrögðum. Veiða.is veit hinsvegar um veiðimenn sem eru að fara til veiða á svæðinu og reikna má því með fréttum um eða eftir helgi.
  • Hlíðarvatn – Kuldakastið undanfarna daga hefur haft sín áhrif en eftir ágætis byrjun í vatninu, þá hefur heldur róast og hefur veiða.is amk ekki heyrt af neinum stórum dögum í vatninu að undanförnu.
  • Gíslholtsvatn – Nokkrir voru við vatnið um síðustu helgi og enn berast fréttir af ágætum urriðum sem eru að koma á land.
  • Þingvallavatn – Engar sérstakar fréttir eru af bleikjuveiði í vatninu, jú ein og ein er að koma á land, en ekki meira en það. Umræðan um urriðaveiðina í vatninu hefur dofnað eftir að upplýst var um að veiðiaðferðið sumra veiðimanna væru nú á nokkuð gráu svæði.

Einhverju er ég örugglega að gleyma, en það kemur þá bara næst.