Í vikunni greindum við frá því að veiðifélag Eldvatns hefði fallið frá þeirri ákvörðun sinni að leigja ána til Verndarsjóðs vestur-skaftfellska sjóbirtingsins en talsmaður þess félags er Pálmi Gunnarsson. Nú hafa Pálmi og félagar sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir segja að samningnum við þá hafi ekki verið formlega rift. Sjá hér að neðan Fréttatilkynninguna.
Fréttatilkynning frá Veiðifélaginu Eldvötnum, (Verndarsjóði vestur-skaftfellska sjóbirtingsins)
Að gefnu tilefni viljum við sem stöndum að félaginu koma því á framfæri að í mars sl. var undirritaður leigusamningur um stangaveiðirétt í Eldvatni í Meðallandi við stjórn Veiðifélags Eldvatns. Frá því að samningurinn tók gildi 1. apríl hefur félagið uppfyllt allar skuldbindingar sem kveðið er á um í samningnum og Veiðifélag Eldvatns móttekið allar umsamdar greiðslur skv. samningnum. Samningi þessum hefur ekki verið formlega rift eins og lesa má í fréttamiðlum.
Jón Ingvar Ragnarsson
Guðmundur Hilmarsson
Pálmi Gunnarsson
Þórarinn Blöndal