Veiðin er farin af stað, bæði í Þingvallavatni og Elliðavatni. Í gær var fyrsti veiðidagurinn á mörgum svæðum við Þingvallavatn, þar á meðal í Þjóðgarðinum. Veðrið var ekki til að hrópa húrra fyrir í gær, að minnsta kosti framan af degi, suð-vestan 10-15m/s og gekk yfir með hríðarbyljum. Þegar leið á daginn þá lægði og þá fóru fréttir að berast af fyrstu urriðum ársins. Meðal annars kom þessi 76cm hængur á land hjá Bjarka Má Jóhannssyni. Stærstu fiskarnir sem við heyrðum af voru um 80cm langir.
Veiðin hófst svo í Elliðavatni í dag, sumardaginn fyrsta. Nokkuð margir veiðimenn lögðu leið sína að vatninu í morgun, enda veðrið mjög gott. Urriðinn var þó tregur til að taka en þó fréttist af nokkrum fiskum sem höfðu látið glepjast af flugum veiðimanna.