Nú er laxveiðivertíðin farin að rúlla ágætlega af stað – Þeim fjölgar hægt og rólega ánum og veiðisvæðunum sem opna og á flestum stöðum er góður gangur í veiðinni. Í gær voru 63 laxar komnir í veiðibókina í Norðurá og 21 lax kom á land á fimm fyrstu vöktunum í Þverá, sem er einhver besta byrjun í manna minnum. Fleiri Vísbendingar eru komnar fram um að þetta verði ágæt laxveiðivertíð, því jákvæð teikn sjást á lofti í þeim hreistusýnum sem Veiðimálastofnun tók af smálöxum í Norðurá og Þjórsá á dögunum, Sjá nánar hér að neðan:
Af vef Veiðimálastofnunar
„Eins og mönnum er enn í fersku minni var smálaxagengd (lax sem er 1 ár í sjó) og veiði síðasta sumar lítil. Rannsóknir á hreistri sýndu að sjávarvöxtur smálaxa í fyrra var mjög lélegur.
Gagnaraðir Veiðimálastofnunar sýna að þegar vöxtur er lítill í sjó eru göngur einnig litlar og þar með veiði. Þetta skýrist af því að þegar skilyrði eru erfið í sjó er vöxtur minni og afföll meiri.
Nú eru fyrstu smálaxar sumarsins farnir að sýna sig á veiðislóð. Sýni hafa verið tekin af laxi í Norðurá og í Þjórsá. Mælingar af smálaxahreistri úr báðum þessum ám sýna að sjávarvöxtur er góður. Þetta eru góðar fréttir og gefur sterka vísbendingu um að smálaxagengd á Suður- og Vesturlandi verði mun betri en á síðastliðnu sumri. Smálax á Norðurlandi kemur heldur síðar og þarf einnig að fylgjast vel með ástandi hans þegar hann sýnir sig.
Lax er farinn að sýna sig víða í ám. Vísbendingar eru um að stórlax sé smár eins og við mátti búast enda var lax af sama árgangi þ.e. smálax í fyrra smár. Hins vegar er smálax einnig mættur í ár á Suður og Vesturlandi sem er snemmt og veit á gott með veiði sumarsins.“