Nú hefur verið opnað fyrir veiði á öllum svæðum Eyjafjarðarár. Þann 1. ágúst opnaði svæði V en svæðið hefur verið í uppáhaldi margra unnenda Eyjafjarðarár. Ágætis veiði var fyrsta sólahringinn en á bilinu 15-20 bleikjur komu á land, margar ansi flottar.
Þar á meðal þessi 65 cm bleikja hér að ofan sem að sjálfsögðu fékk að fara aftur í ánna eins og reglur árinnar kveða á um. Veiðimaðurinn var jón Gunnar Benjamínsson. Bleikjan tók Krókinn nr. 12 í litlum polli hjá brúnni yfir á Vatnsenda. Hægt er að sjá fleiri myndir af svæði V hér að neðan.
Bærileg veiði hefur verið á öðrum svæðum árinnar í sumar þó svo að stór aurskriða sem féll inní Torfunesdal snemma í júlí hafi gert aðstæður mjög erfiðar, suma daga í sumar. Síðustu vikur hafa fréttir borist af stórum laxi sem sést hefur til á svæði 4. Hafa menn reynt að egna fyrir hann ásamt því að leita að bleikjunni. Nú í vikunni veiddist svo bolta lax á svæði 3 í ánni. Veiðimaðurinn heitir Gunnar Kristjánsson en laxinn tók bleikjuflugu, upstream á Hagabreiðunni á 8 punda taum. Þrátt fyrir nettar græjur tókst að landa laxinum, eins og sést hér til hliðar.
Töluvert er af lausum stöngum á öllum svæðum nú í ágúst og hvetjum við þá sem hafa tækifæri til, til að kíkja í ánna. Hægt er að fá upplýsingar um lausar stangir í Ellingsen á Akureyri í síma 460 3630.
{gallery}eyja2012{/gallery}