Veiðimenn halda áfram að kanna veiðislóðir nú í upphafi apríl og að sama skapi munum við halda áfram að leita frétta af veiðislóðum.
Mokveiðifélagið var á ferð í Húseyjarkvísl í gær og landaði samtals 26 fiskum, þar af 4 löxum. Allt voru þetta vænir fiskar, flestir á bilinu 66-73 cm. Veðrið var bærilegt framan af degi en eftir kaffi fór að snjóa og allt varð hvítt í Skagafirðinum. Nánar má lesa um ferðina í Húseyjarkvísl inná veidimenn.com.
Mikil örtröð var við Meðalfellsvatn í gær og lá við að veiðimenn þyrftu að fara í röð til að komast á heitustu staðina. Veðrið var ágætt, betra en oft áður á fyrsta degi tímabilsins. Aflabrögð voru hinsvegar ekki eftir því, smá kropp var hjá einum og einum veiðimanni. Inná Flugur og Skröksögur má lesa frásögn af veiðitúr í Meðalfellsvatn frá því í gær.