Áfram heyrum við af frábærri veiði í Hlíðarvatni. Nú voru það tveir veiðimenn sem voru í húsi þeirra Árbliksmanna en því fylgja tvær stangir í vatninu. Þeir voru við veiðar í gær og sögðu að það væri nóg af fiski í vatninu og eins og alltaf þá væri það bara spurning um smá þolinmæði og að velja réttu fluguna. Hér að neðan má sjá frásögn þeirra:
„Hlíðarvatn tók frábærlega á móti okkur þennan dag. Komum að Austurnesi um kl 11 sáum toppflugu vera að klekjast og nokkrar bleikjur í uppitöku. Bleikjan var í tökustuði. Við vorum á Austurnesinu í 5 tíma og lönduðum 31 bleikju, 7 fengu líf og 24 skráðar í veiðibók. Engjaflugan gaf nær alla fiskana fyrir utan 1 á peacock og 3 á tailor. Engjaflugan var sem dropper og neðri flugunni skipt út af mikilli elju en með engum árangri. Það var engin bolta bleikja í hópnum sú stærsta var 1.5 kg, 6 voru 1.0 kg sem eru jú stórar Hlíðarvatnsbleikjur restin var frá 0,6- 0,8 kg. Bleikjan var í góðum holdum og leit vel út.“
Þeir sögðu einnig að ánægjulegt hefði verið að sjá að lítil hreyfing hefði verið á öðrum veiðimönnum sem væri vísbending um að allir væru í fiski; Árblik á Austurnesinu. Hafnfirðingar í Hlíðarey og Ármenn á Mosatanganum.
Nú höfum við séð fréttir á síðasta sólarhing frá 3 af 5 stangaveiðifélögum sem leigja út stangir í vatninu. Samtals komu rúmlega 90 bleikjur á land hjá þessum félögum. Þetta er frábær byrjun í vatninu og veit á gott sumar.
Á myndinni hér að ofan er annar veiðimannanna, Guðmundur Karl, með hluta af veiðinni í gær.
Nú er um að gera að tryggja sér veiðileyfi í Hlíðarvatni hjá Árblik. Hér má sjá lausa daga. Hús og tvær stangir eru innifaldar í verðinu. Einnig er hægt að senda póst á [email protected] eða hringja í síma 897 3443 til að fá nánari upplýsingar.