Flókan eða Flókadalsá, hefur einkenni bæði dragáa og lindáa. Hún á upptök sín í vestanverðu Oki og fellur þaðan 35 km leið til Hvítár í Borgarfirði, rétt ofan við Svarthöfða. Vegna lindaráhrifa helst vatnsrennsli árinnar nokkuð stöðugt og eins eru sveiflur í veiði almennt minni í Flóku en flestum öðrum ám. Veiði í sumar er nokkuð úr takt við það sem almennt þekkist í Flókunni.
Meðalveiði áranna frá 1974 til 2008 er 363 laxar en meðalveiði áranna 2002 til 2011 var 530 laxar. Sumarið 2008 komu 475 laxar á land en nú í sumar voru þeir aðeins 300.
Veiðin í Flókunni fór mjög vel af stað og eftir um 37 veiðidaga var aflinn kominn í um 200 laxa. Restina af tímabilinu, í um 63 daga, komu einungis 100 laxar á land. Veitt er á 3 stangir í Flókunni og er leyfð veiði á flugu og maðk. 300 laxar á 3 stangir er líklega ekki svo slæmt en það breytir ekki því að um mikinn samdrátt í veiði er að ræða. Síðast var það sumarið 2003 sem veiðin var nálægt þessari tölu en þá komu 334 laxar á land.
Nú er að sjá hvort ekki hafi verið um einstakt ár að ræða í Flókunni og allt eins má telja það líklegt. Veiðihollin sem sótt hafa ánna heim hafa flest gert það í mörg ár og nokkuð öruggt að þau láti ekki eitt slakt veiðisumar breyta því.