Eyjafjarðará hefur til margra ára verið ein besta sjóbleikjuá landsins þó svo að hún hafi dalað svolítið frá því þegar hún var uppá sitt besta. Síðustu árin hefur sjóbirtingsveiði aukist í ánni og í fyrra veiddust fleiri birtingar og urriðar heldur en bleikjur í ánni. Það sem veiðimenn eru samt að sækja í, í Eyjafjarðará er bolta bleikjan sem þar er að finna. Framan af sumri hefur áin verið erfið viðureignar vegna leysingavatns en nú er hún orðin flott og bíður þess að veiðimenn raði sér á bakka hennar. Þessa flottu bleikju veiddi Jón Gunnar Benjamínsson uppá svæði V.
Nú í fyrsta sinn er hægt að kaupa veiðileyfi í Eyjafjarðará á netinu en inni á vefsíðu árinnar, www.eyjafjardara.is, er hægt að skoða lausar stangir á hverju svæði, bóka og afgreiða kaupin. Flottur tími er framundan í ánni og því um að gera fyrir alla veiðimenn sem búa fyrir norðan eða eru þar á ferðinni, að ná sér í dag eða dagpart í ánni.