Athygli lang flestra, frá því að Þingvallavatn opnaði fyrir veiði, hefur verið á fréttum af vænum urriðum sem hafa verið að veiðast. Samt er það nú þannig að flestir sem sækja í vatnið eru að leita að bleikjunni sem þar býr. Yfirleitt veiðist reyndar frekar lítið af bleikju fyrstu dagana í maí, fer það þó mikið eftir tíðinni. Um leið og hlýnar, þá fer bleikjan að láta sjá sig. Ásgeir Ólafsson var á ferð við vatnið í gær og svo virðist sem hann hafi engu gleymt frá síðasta sumri.
Hann kíkti við í Vatnskotinu og náði þessum tveimur flottu bleikjum. Sú minni er 2,5 pund en sú stærri er 63 cm og 6 pund. Þær komu báðar á stóran Peacock. Frábærir fiskar hjá góðum veiðimanni.