Eins og við höfum fjallað um að undanförnu þá hefur veiðin í Hlíðarvatni í Selvogi farið ágætlega af stað en vatnið opnaði 1. maí. Opnunardagarnir voru góðir enda aðstæður góðar, veður fínt og vatnshiti komin uppí °7. Við höfum birt fréttir af flottum bleikjum sem veiðst hafa í vatninu síðustu daga og í gær kom ein slík á land í Skollapollum. Veiðimaðurinn heitir Kjartan Þorvarðarson og er einn stjórnarmanna í Stangaveiðifélaginu Árblik í Þorlákshöfn. Árblik hefur til umráða 2 stangir í vatninu.
Þessi flotta bleikja er 62 cm og 2,5 kg. Tók hún blóðorm nr. 10, á flotlínu og langan taum.
Yfirleitt seljast veiðileyfin vel í Hlíðarvatni í maí en þegar kemur fram í júní er strax hægt að sjá lausa daga. Við förum betur síðar yfir lausa daga í Hlíðarvatni.