Nú er innan við vika í að veiðitímabilið hefjist. Fyrir sunnan eru góðar líkur á að þeir sem ætla að kíkja í birtinginn í ánum á suðurlandi eða í Brúará eða Varmá, fái ágætis aðstæður. Aðstæður gætu þó verið erfiðari fyrir norðan þar sem mikill snjór er fyrir. Það stöðvar hinsvegar ekki Dalvíkinginn Marinó Heiðar Svavarsson í að hnýta nokkrar af sínum stórgóðu urriða, bleikju og sjóbirtingsflugum sem hafa svo sannarlega sannað sig á síðustu sumrum.

Marinó er höfundur flugunnar Stirðu (sjá hér til hliðar) sem hefur sannað sig sem mjög góð sjóbleikjufluga. Þessi hér að ofan er nokkra ára gömul og hefur reynst mjög sterk í urriða og birting. Marinó ákvað fyrir nokkru að tími væri komin á að gefa henni nafn og heitir hún nú Martinez, í höfuðið á þjálfara Everton, enda Marinó einn af harði Everton mönnum landsins. Hér er einnig komið smá mótvægi við hann Suarez sem við sögðum frá um daginn.

Fyrir ykkur hina sem eruð enn að leita að ykkar eigin leynivopni sem er ykkar eigin hugarsmíði, þá er um að gera að kíkja í veiðibúðir og ná ykkur í svolítið af nýju hnýtingarefni. Það hjálpar stundum að fá eitthvað nýtt á borðið, það kemur hugmyndafluginu af stað. Gangi ykkur vel.

[email protected]