Veiðitímabilið 2013 tók brosandi á mót þeim veiðimönnum sem tóku daginn snemma í morgun hér á suðurlandi. Allar stangir voru seldar í Brúará fyrir landi Spóastaða þó svo að þær væru ekki fullmannaðar þegar veiða.is kíkti við í dag. Við veiðar í ánni var m.a. Vignir Arnarson sem hefur mikla reynslu af veiði í Brúará. Vignir hefur „opnað“ Brúará síðustu 15 ár og að hans sögn hefur hann aldrei fengið jafn gott veður og í dag.

Strax um kl. 8 í morgun var lofthitinn komin yfir °5 og uppúr kl. 10 voru gráðurnar orðnar 10. Við ána var hægviðri eða jafnvel logn. Vignir var við veiðar við annan mann en þeir hófu veiðar við brúna. Strax, nánast í fyrst kasti, setti Vignir í vænan sjóbirting ofan við brúna en svæðið hefur ekki verið þekkt fyrir mikla sjóbirtingsveiði. Hann landaði birtingnum og fljótlega sáu þeir félagar til fyrstu bleikjunar sem hafði leitað uppað kantinum í leit að æti. Við yfirgáfum þá félaga eftir stutt stopp en þá hafði væn bleikja tekið svartan vínilorm hjá honum Vigni.

Vignir og félagi hans höfðu mætt að ánni um kl. 10 í morgun en mun fyrr eða uppúr kl. 8 í morgun höfðu 2 reynsluboltar úr Keflavík rennt niður á Breiðabakka. Þegar veiða.is hitti þá þar uppúr kl. 12 þá voru þeir búnir að ganga frá í bílinn og voru á leið uppað fossi. Þeir félagar hafa komið á svipuðum tíma árs í Brúará mörg undangengin ár en hafa aldrei lent í sambærilegri veiði og í morgun. Þeir settu í og lönduðu um 20 bleikjum, nokkrar þeirra voru um og yfir 50 cm. Sú stærsta 53 cm. Nokkrar fengu að fara aftur í ána aftur. Bleikjan var væn og vel haldin. Flestar tóku þær Babbann en höfundur hans er Björgvin Björgvinsson sem einmitt vann Íslandsmótið í fluguveiði sem haldið var í Brúará fyrir nokkrum árum.

Við bendum mönnum á að enn eru nokkrar flottar helgarstangir lausar í apríl.

{gallery}bruara2{/gallery}

[email protected]