Hlíðarvatn í Selvogi virðist aldeilis vera að komast í gang, nú eftir að hlýnaði í veðri. Hópur sem mætti í vatnið í gærkveldi og hætti um kvöldmatarleytið í kvöld, var með 30 bleikjur. Ólafur Sigurjónsson sem var í þessum hópi sagði að bleikjurnar hefðu verið feikna fallegar, frá 1 pundi uppí rúm 4 pund. Meðalþyngdin var reyndar alveg frábær, rétt um 3 pund.

Svæðið í og við Hlíðarey gaf þeim félögum lang flestar bleikjur. Tvær þeirra komu í gærkveldi en hinar allar í dag. Veður var frábært framan af degi, hlýtt og stillt, en þegar leið á daginn þá dró fyrir sólu og það kólnaði. Þessi afli kom á 4 stangir. Veitt er á 14 stangir í vatninu.

Eins og við sögðum frá á þriðjudaginn þá voru þá líklega um 70 bleikjur skráðar í veiðibækurnar 5 í Hlíðarvatni. Nú síðustu 2 daga hefur veðrið leikið við veiðimenn á svæðinu og spennandi að heyra hvort öllum hafi gengið jafn vel og Ólafi og félögum.

Hér er hægt að ná sér í veiðileyfi í Hlíðarvatni.

[email protected]