Norðfjarðará hefur verið í sviðsljósinu hjá okkur öðru hverju en hún er ein af betri sjóbleikjuám landsins. Met veiði var í fyrra þegar 1.142 bleikjur komu á land og 11 laxar. Norðfjarðará fellur til sjávar í Norðfjörð, innanverðan, en stutt er þaðan út í Neskaupstað. Veitt er með 3 stöngum í ánni og leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn þó langflestir fiskar veiðist á fluguna. Ásgeir Ólafsson kíkti í Norðfjarðará um helgina og veiddi þá gríðarlega vel.

Ásgeir er s.s. ekki óvanur í Norðfjarðará, hefur farið austur síðustu sumur. Í fyrra var hann í ánni á svipuðum tíma og veiddi þá 29 bleikjur á einum degi eða dagparti. Hann hélt að hann myndi seint toppa þann dag en um helgina stoppaði hann við í einn og hálfan dag og náði 67 bleikjum. Allt voru þetta flottar bleikjur, á bilinu 0,7 – 2,0 kg. Hann tók heim með sér 28 af þeim 67 bleikjum sem hann veiddi og er ættingjar og vinir víst búnir að njóta góðs af þessari flottu veiði. Flesta fiskana fékk hann uppá dal í stöðum eins og Hólahyl og Bakkaselsbreiðu.

Nú eru komnar um 530 bleikjur úr Norðfjarðará og 5 laxar. Líklegt má telja að þetta sumar verði yfir meðallagi í ánni. Eitthvað er um lausar stangir í ánni þegar líður á ágúst.

[email protected]