Tuttugasti og sjötti ágúst, tæpur mánuður eftir af laxveiðivertíðinni og sjóbirtingstíminn er hafinn. Birtingurinn er byrjaður að ganga mjög víða og enn er að veiðast einn og einn lúsugur lax. Þetta er búið að vera fínt veiðisumar en það má vænta breytinga á veiðileyfamarkaðnum á næstunni. Fyrstu merki þess sem koma skal í vetur og haust sáust á dögunum þegar fréttir bárust að því að félag tengt Lax-á „skilaði“ Víðidalsá og Fitjá. Tvö ár voru eftir af leigutímanum en Víðidalsá er komin í útboð. Það má búast við því að fjöldi vatnasvæða fari sömu leiði í haust og vetur. Einhverjir leigutakar munu þó örugglega ná að semja um lækkun á leiguverði.

Í dag verða opnuð tilboð í útboði á veiðirétti í Straumfjarðará. Heyrst hefur að fjölmörg tilboð hafi borist, bæði frá þekktum og minna þekktum aðilum á þessum markaði. Veiðin í Straumu hefur verið mjög góð í sumar, sem örugglega mun hafa einhver áhrif á þau tilboð sem berast.

Enn er beðið eftir niðurstöðu í útboði Flekkudalsár. Tilboðin sem bárust voru ólík að ýmsu leyti, ekki bara hvað varðar upphæðir. Veiðifélagið ætlaði að ræða við tilboðsgjafa áður en ákveðið yrði við hvern verður samið.

Frestur til að skila inn tilboðum í Víðidalsá, Fitjá og Hópið rennur út 30. september og verða tilboðin opnuð sama dag. Heyrst hefur af áhuga ýmissa aðila á því útboði.

Frestur til að skila inn tilboðum í Tungufjót í Skaftafellssýslu rennur út 28. ágúst. Tilboð verða síðan opnuð þann 30. ágúst. Tungufljót er eitt albesta sjóbirtingssvæði landsins.

Í haust og vetur munum við fylgjast vel með útboðsmálum og birta fréttir af þeim, jafnóðum og þær berast.

[email protected]