Hér eru nokkur veiðifréttakorn.
Hraunið – Nú er veiðin tekin að glæðast á Hrauninu. Eftir að straumur fór stækkandi og hitinn steig upp, þá hefur fiskur farið að sýna sig og hafa ýmsir gert ágæta veiði. Enn er þó ástundun frekar lítil og hvetjum við veiðimenn á suðvestur horni landsins til að skjótast á Hraunið, enda kosta leyfin einungis kr. 2.000. Besti tíminn á Hrauninu er frá miðjum maí fram í ágúst.
- Brúará – Áin er mjög lítið stunduð eins og við höfum nefnt áður, þó voru veiðimenn við ánna um helgina og voru þeir í fiski.
- Ósasvæði Ásanna – Svæðið hefur verið lítið stundað frá opnun 1. maí, m.a. vegna veðurs en einungis örfáir dagar eru síðan veturinn hörfaði á braut, en nú vorar hratt á svæðinu. Þó er það í fréttum að veiðimenn sem komu þar við í vikunni komu að stórri selavöðu sem var í ósnum að gæða sér á hoplaxi sem var þar í miklu mæli og silungi. Þeir selir veiða nú á fjarlægari slóðum.
- Apavatn/Laugarvatn og Hólaá – Veiðimenn sem voru í Laugarvatni og Hólaá um helgina náðu í væna urriða og stóra bleikju. Að sögn þeirra þá sáu þeir töluvert af fiski í ánni. Því virðist allt komið á stað aftur eftir vetrarhretið sem gekk yfir í síðustu viku.
- Vatnamótin – Nú er vorveiðitímabilinu formlega lokið fyrir austan í Vatnamótunum. Birtingurinn hefur skilað sér að mestu til sjávar en veiðin hefst hefst svo á fullum dampi aftur þegar hann lætur sjá sig síðar í sumar. Heildarveiði nú í vor voru rúmir 400 fiskar sem er rétt meðal veiði. Mest hafa 760 fiskar veiðst í vorveiðinni í Vatnamótunum.
- Hlíðarvatn – Heldur hægðist á veiðinni í Hlíðarvatni þegar kuldakastið gekk yfir í síðustu viku og komu margir þaðan fisklausir á þeim tíma. Áður höfðu ýmsir gert þar fína veiði. Inná Hlíðarvatnsspjallinu hér á veiða.is sagði reyndur veiðimaður frá því hvernig hann stæði að veiðum í vatninu. Hann sagði m.a. alltaf nota, “ tvær flugur, taumurinn ein og hálf til tvær stangarlengdir. Nenni ekki að veiða á intermediate og nota bara flotlínu – hrein íhaldssemi. Eyði bara meiri tíma í að telja meðan flugurnar sökkva, er oftast að bíða í 25 til 35 sekúndur þar til ég fer að draga og dreg þá hægt, lúshægt.“ Meira um þetta inná spjallinu.