Nokkuð rólegt virðist vera á sjóbirtingsslóðum á suðurlandinu þessa dagana, amk. fer ekki miklum sögum af veiði. Utan þess að nokkur lítil skot hafa komið í ám eins og Tungfljótinu, Geirlandsá, Eldvatni, Grenlæk og Fossálunum, þá er tiltölulega hljóðlegt.

 

Síðustu daga höfum við hlerað veiðimenn sem hafa verið á ferðinni á sjóbirtingsslóðum og svo virðist sem svipaða sögu sé að segja allsstaðar; rólegt eða frekar dræm veiði þó svo að einn og einn bolti sé að veiðast. Fossálarnir virðast vera það svæði sem komið hefur mest á óvart í haust en meira hefur veiðst þar en oft áður. Sem dæmi um sterkt sjóbirtingssvæði sem lítið hefur borið á, er Vatnamótin. Fyrstu göngurnar komu í byrjun ágúst en síðan þá hefur veiðin ekki náð miklu risi miðað við hvað gengur og gerist á því svæði. Fáeinir stórir hafa veiðst og nokkur holl hafa náð í kringum 20 fiskum, en fleiri fara frá svæðinu aflalitlir.

Nú er komið fram í október og stutt eftir af veiðitímanum. Nú er að sjá hvort kraftur komi í veiðina áður en yfir líkur. Það eru hinsvegar ýmsir sem telja að árnar eystra, þurfi lengri tíma til að jafna sig af áhrifum gossins.