Nú er laxveiðitímabilið að keyra af stað á fullu. Á næstu dögum opna margar af helstu ám landsins. Góðar opnanir í Norðurá og Blöndu gefa góð fyrirheit og eins hafa Straumarnir tekið vel við sér. Meðal annars fékk veiða.is fréttir af veiðimönnum sem voru að koma þaðan með 5 grálúsuga í farteskinu. Síðustu daga höfum við heyrt að laxagengd er með meira móti miðað við árstíma í mörgum ám og víða, eins og í Laxá í Kjós, eru menn orðnir æði spenntir að komast í hylina.
Kjósin opnar í vikunni og munum við hlera menn sem verða á bökkunum árinnar þegar að því kemur.
Ýmsar af þeim ám sem skráðar eru hér á vefinn opna einnig nú næstu daga og má þar m.a. nefna Hofsá, Búðardalsá, Langholtið í Hvítá og Hafralónsá. Hér inná vefnum má finna nokkra lausa daga í laxveiði nú í júní. Kíkið undir Laus veiðileyfi.
Nokkrar bleikjuár eru einnig að opna á næstunni. Ein þeirra er Eyjafjarðará en svæði 1 opnar 21. júní. Fyrstu dagarnir eru seldir en skv. heimildum veiða.is er eitthvað er laust eftir 24. júní. Lausar stangir eru seldar í Ellingsen á Akureyri.
Veiðifréttir
Veiða.is tók stöðuna á nokkrum af þeim svæðum sem við höfum verið að fylgjast með að undanförnu.
Úr Brúará, landi Spóastaða, er s.s. ekki mikið að frétta og ástundum svipuð og áður, lítil. Þó eru veiðimenn yfirleitt á bakkanum á helgum. Af einum veiðimanni sem var við ánna um helgina er það að segja að hann náði 4 eða 5 fínum bleikjum, niðri á bökkum og ofan við brúnna.
Frekar rólegt hefur verið á Hrauninu undanfarna daga og vorið og byrjun sumars hefur oft verið betri en í ár. Bíða menn nú spenntir eftir fyrstu stóru sjóbirtingsgöngunum og svo fer nú laxinn vonbráðar að ganga upp vatnakerfið í Hvítár.
Gíslholtsvatn er vatn sem komist hefur ofar á kortið hjá vatnaveiðimönnum síðustu ár. Fínir dagar hafa komið inn á milli en frekar róleg var veiðin í vatninu um umliðna helgi. Leyfin í vatnið kosta lítið eða kr. 500.
Af vatnasvæðinu við Laugarvatn er það helst að frétta að ástundun veiðimanna hefur verið lítil síðustu daga en þó virðist svæðið launa þeim iðulega sem kíkja við. Veiðimenn sem voru þar fyrir nokkrum dögum og ltiið fyrst og frest í Hólaá fengu 9 fína urriða.
Rólegt hefur verið í Hlíðarvatni að undanförnu. Veiðimenn sem voru við vatnið á þjóðhátíðardaginn náðu 3 bleikjum. Hafa þeir veitt í vatninu á svipuðum tíma síðustu ár en sjaldan lent í bleikjunni svona tregri. Reyndu þeir öll trikkin í bókina en lítið gekk.
Þingvallarvatn hefur gefið þolinmóðum veiðimönnum nokkuð vel og höfum við séð nokkrar flottar myndir af bleikjunum úr vatninu að undanförnu. Hér að ofan má sjá mynd af flottum bleikjum sem komu á land á Melinn hans Júlla í Flugukofanum. Veiðimaðurinn var Siggi Valla, veiðimaður og hnýtari úr Keflavík.